Þetta hefur bandaríska dagblaðið Washington Post eftir núverandi og fyrrverandi embættismönnum, sem sagðir eru kunnugir málinu.
Sjá einnig: Símtal Trumps sagt skýrt dæmi um embættisbrot
Í frétt blaðsins er Joseph Maguire, starfandi yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar (DNI), sagður hafa varað Hvíta húsið við því að hann myndi ekki sitja á upplýsingum þegar hann kemur fyrir þingnefndir Bandaríkjaþings á morgun. Þar verður Maguire spurður út í kvörtun uppljóstrara sem barst leyniþjónustunni um umdeilt símtal Donalds Trumps Bandaríkjaforseta við Volodymyr Selenskíj, forseta Úkraínu.
Washington Post segir hótun Maguire endurpegla hina „mögnuðu spennu“ á milli þess fyrrnefnda og Hvíta hússins vegna málsins, sem leitt hefur til þess að formleg rannsókn er hafin á því hvort Trump hafi framið embættisbrot í starfi.
Maguire, sem tók við embættinu í síðasta mánuði, hafnar því þó að hafa nokkurn tímann íhugað að segja af sér. „Ég hef ekki hætt við neitt á ævinni og mun ekki byrja á því núna,“ segir í yfirlýsingu hans vegna málsins. Hvíta húsið vísar frétt Washington Post einnig á bug. Blaðið stendur enn við fréttaflutning sinn, þrátt fyrir yfirlýsingar Maguire og ríkisstjórnarinnar.
This is actually not true. And we would have gone on the record to say that if the @washingtonpost had given us more than 6 minutes (literally) to respond. https://t.co/5EBnBlShbK
— Stephanie Grisham (@PressSec) September 25, 2019
Bandaríska forsetaembættið birti í dag uppskrift af símtali Trumps og Selenskíj. Í uppskriftinni kemur fram að Trump hafi beðið Úkraínumanninn að rannsaka Joe Biden, einn sigurstranglegasta frambjóðandann í prófkjöri Demókrata fyrir næstu forsetakosningar, og störf sonar hans, Hunter Biden. Uppástunguna bar Trump upp í beinu framhaldi af umræðum um hernaðaraðstoð við Úkraínu.
Öldungadeildin samþykkti einróma í nótt að kalla eftir óritskoðaðri kvörtun uppljóstrarans. Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, þar sem Demókratar hafa meirihluta, sagði svo í gær frá því að þingið myndi rannsaka hvort Trump hafi framið embættisbrot og er Úkraínumálið kornið sem fyllir mælinn.