Skoðun

Húsnæðisbætur - líka fyrir herbergi

Pawel Bartoszek skrifar
Námsmaður sem leigir herbergi á stúdentagörðum á 80 þúsund krónur fær 32.460 krónur í húsnæðisbætur.

Námsmaður sem leigir herbergi í fjölbýlishúsi í Árbænum á 120 þúsund fær ekki húsnæðisbætur.

Einstaklingur í bata sem leigir herbergi á áfangaheimili fær 32.460 krónur í húsnæðisbætur.

Erlendur verkamaður sem leigir herbergi á athafnasvæði í Höfðunum fær ekki húsnæðisbætur.

Samkvæmt lögum geta leigjendur fengið styrk fyrir húsaleigu, húsnæðisbætur. Menn geta deilt á um ágæti þessara bóta eins og annarra en ef niðurgreiða á húsnæði fólks á annað borð er beinn fjárhagslegur stuðningur samt ansi góð leið. Miklu betri en leiguþök eða önnur dulin markaðsinngrip.

Í lögum er tekið fram að húsnæðisbætur eru ekki greiddar fyrir herbergi. Þetta hefur Leigjendaaðstoð Neytendasamtakanna gagnrýnt réttilega. Eflaust var hugmyndin að tryggja ákveðin lágmarksgæði á leiguhúsnæði en niðurstaðan er auðvitað bara sú að þeim er refsað sem ekki eiga efni á að leigja heila íbúð út af fyrir sig. Tekjulægra fólk þarf því að gjalda fyrir að geta ekki útvegað sér húsnæði sem fellur að gæðakröfum löggjafans.

Síðan hefur löggjafinn ákveðið að verða örlítið sveigjanlegur og borga með herbergjum á stúdentagörðum og áfangaheimilum. Sem er ágætt: sveigjanleiki er af hinu góða. En fyrst við lítum almennt ekki svo að vernda eigi fólk frá því að leigja herbergi á stúdentagörðum og áfangaheimilum þá ætti ekki heldur að reyna refsa fólki sem kýs að leigja sér herbergi einhvers staðar annars staðar.

Höfundur er borgarfulltrúi og varaþingmaður Viðreisnar.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×