Dr. Tedros Adhanom, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), harmar ákvörðun Bandaríkjaforseta um að hætta, að minnsta kosti tímabundið, að styrkja stofnunina.
Þetta kom fram á blaðamannafundi forstjórans í gær. Varaði hann þar við sundrungu á viðsjárverðum tímum.
Adhanom sagði kórónuveiruna ekki fara í manngreiningarálit og að hún væri sameiginlegur og hættulegur óvinur. Kórónuveiran myndi nýta sér sprungurnar sem myndast í óeiningunni á tímum þar sem þjóðir heims og mannúðarstofnanir þyrftu að snúa bökum saman.
Adhanom sagði að Bandaríkin hefðu reynst stofnuninni vel. Bandaríkin hefðu verið henni örlát vinaþjóð í lengri tíma.
Hann sagði að nú myndi stofnunin rýna í fjármálin og leita til annarra samstarfsþjóða til að brúa bilið því mikilvægast af öllu væri að stofnunin gæti unnið áfram án truflana.