Þýska flugfélagið Lufthansa er í viðræðum við þýska ríkið um 9 milljarða evra björgunaraðgerð til að reyna að koma í veg fyrir fall félagsins vegna kórónuveirufaraldursins. Upphæðin samsvarar nærri 1.411 milljörðum íslenskra króna. Með aðgerðinni myndi þýska ríkið eignast 20 prósenta hlut í félaginu.
Í tilkynningu frá Lufthansa í dag kemur fram að gangi samningar eftir fái ríkið tvö sæti í rekstrarráði félagsins en myndi aðeins nýta kosningarétt sinn í ráðinu við sérstakar aðstæður.
Viðræður milli ríkisins og Lufthansa hafa staðið yfir í margar vikur en hefur reynst erfitt að ná samkomulagi um það hversu mikla stjórn á félaginu ríkið myndi fá. Heimildarmenn fréttastofu Reuters segja að lokatilboð hafi ekki verið kynnt af ríkinu en það ætti að gerast í dag, fimmtudag.
Önnur flugfélög hafa einnig sóst eftir fjárhagsaðstoð, þar á meðal fransk-hollenska félagið Air France-KLM, bandarísku flugfélögin American Airlines, United Airlines og Delta Air Lines.
Í tilkynningunni frá Lufthansa kom einnig fram að í samningnum yrði sagt til um niðurfellingu framtíðar arðgreiðslna og takmörk rekstrarkostnaðar. Þá mun framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins þurfa að samþykkja samninginn áður en hann er undirritaður.