Skoðun

Mér finnst…

Sigríður Karlsdóttir skrifar

Í gærkvöldi var ég komin með nóg af þessu rugli og skoðaði bara matreiðslumyndbönd og dúlluleg dýramyndbönd.

Síðustu daga hef ég og aðrir hér í þessum klikkaða heimi verið að drukkna í “mér finnst” skilaboðum. Hvort sem ég er stödd í heita pottinum, biðröð á kassa í Bónus eða með tölvuskjáinn fyrir framan mig.

Alls staðar finnst fólki eitthvað, einhvers staðar.

Ég skal segja ykkur hvað mér finnst! (Kaldhæðni fyrir ykkur sem ætla að finnast eitthvað um hvað mér finnst) (Þetta var líka kaldhæðni).

Að sitja heima hjá sér og líta 237 sinnum á fréttamiðla hjálpar ekki.

Að geta ekki sofið yfir áhyggjum af sjálfum sér eða öðrum hjálpar ekki.

Að tala stanslaust um yfirvofandi ástand í heiminum hjálpar ekki.

Að þvo sér hendurnar og lifa lífinu í gleði, hjálpar.

Að sleppa tökunum á ástandinu en gera það sem þarf að gera, hjálpar.

Að forðast fréttamiðla og púsla með börnunum sínum, hjálpar.

Sadhguru (dásamlegur maður sem veit ansi margt um þessa undarlegu tilveru okkar hér) segir að helsta vandamál okkar sem lifum í hinum vestræna heimi sé að við tökum hlutunum svo fjandi alvarlega.

Að taka hlutnum alvarlega gæti verið að tala stanslaust umm á innsoginu, hvað ástandið er hræðilegt og það kemst ekkert annað að í lífinu en áhyggjuhugsanir og fóðrun á hamfarafíkninni.

Að taka hlutunum ekki alvarlega er til dæmis að fara eftir almannavörnum eða öðrum með sérhæfingu í þessum málefnum, dansa heima hjá sér í sóttkví eða leyfa sér að kitla börnin þrátt fyrir allt sem gerist þarna úti.

Mér finnst…

..að við þurfum að hlæja, dansa, syngja og brosa oftar án þess að skammast okkar fyrir það.

Svona í tilefni ástandsins skora ég á okkur að fara í skoðanabindindi. Að prófa að hafa ekki skoðun í heilan dag og sjá hvað gerist!

Það er það sem mér finnst!

Höfundur er lífsleiknikennari, heilsuráðgjafi og sérlegur áhugamaður um mannlegt eðli.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×