Annan daginn í röð er of hvasst á skotstað á Langanesi í dag þar sem skoska fyrirtækið Skyrora hyggst skjóta upp tilraunaeldflaug.
Skyrora þróar og smíðar eldflaugar með það að markmiði að flytja gervihnetti út í geim. Fyrirtækið vinnur nú að því að þróa eldflaugar til verksins og hluti af því er að skjóta upp minni eldflaugum.
Hópur frá Skyrora er nú staddur á Norðausturhorni landsins, nánar tiltekið á Langanesi, þar sem skjóta á upp um fjögurra metra langri eldflaug. Sérstakur gluggi til að skjóta upp eldflauginni opnaðist í gær, en veðurskilyrði voru ekki hagstæð.
Það sama er uppi á teningnum í dag en of hvasst er á Langanesi svo að öruggt þyki að skjóta upp eldflauginni, en áfram verður athugað með stöðuna næstu daga.
Í stað eldflaugaskotsins geta börn í Langanesbyggð heimsótt skotstaðinn klukkan fimm í dag.
Robin Hague, sem stýrir verkefninu, mun taka á móti áhugasömum milli fimm og sex í dag og fara yfir starfsemina skotstað, hvernig skotið fer fram og hvað þarf að hafa í huga fyrir skot svo fátt eitt sé nefnt. Atli Þór Fanndal, frá Geimvísinda- og tækniskrifstofunni, mun aðstoða Robin að þýða á íslensku fyrir yngri börnin.
Vegna COVID-19 verður hleypt inn á skotstað í litlum hópum. Þá er takmarkaður fjöldi sem kemst að og því er nauðsynlegt að skrá sig fyrir komu hér, á vef Langanesbyggðar.