IKEA-vörulistinn – IKEA-bæklingurinn – kemur einungis út á rafrænu formi að þessu sinni og munu landsmenn því ekki þurfa að bíða eftir að fá pappírsútgáfuna inn um lúguna.
Frá þessu segir í tilkynningu frá IKEA á Íslandi, en útgáfa vörulistans er sagður marka upphaf nýs rekstrarárs.
Þar segir að vörulistinn sé í senn bæði hefðbundinn og óvenjulegur að þessu sinni. „Efnislega er hann með svipuðu sniði og undanfarin ár en nýlundan er að hann verður eingöngu gefinn út á rafrænu formi. Fyrir því eru ýmsar ástæður, sem eru einnig tækifæri til að gera þessa tilraun sem kemur síðar í ljós hvort verði breyting til framtíðar.“
Umhverfisþátturinn spilar inn í
Umhverfisþátturinn er einnig sagður spila inn í, en vörulisti IKEA hafi í mörg ár verið stærsta prentverkefni í heimi og stærsta póstdreifing á Íslandi á ári hverju.
„Vörulistinn á hóp dyggra aðdáenda sem munu eflaust syrgja það að geta ekki flett honum á hefðbundinn hátt en rafræn útgáfa býður upp á ýmsa snjalla virkni sem sá prentaði gerir ekki,“ segir í tilkynningunni, en vörulistinn verður aðgengilegur á vef fyrirtækisins næstkomandi fimmtudag.