Skoðun

Þegar Tröllin tröllríða...

Sigríður Karlsdóttir skrifar

Við þekkjum flest söguna um Trölla. Sem sat einn óralangt í burtu, át rusl og öskraði argur á bæjarbúa sem allir voru bara að reyna hafa góðan dag.

Stundum þegar ég gæti ekki að sálartetrinu fer ég að lesa kommentakerfi fréttamiðlanna. Ég gleymi alltaf hvað það er skaðlegt og skil aldrei í mér að hafa eytt tíma í að lesa orð tröllanna. Kannski skuggahliðin læðist þarna út hjá mér.

Kommentakerfa-tröllin eru flest öll ogguponsu reið. Örg. Pirruð. Já og smá gröm kannski.

Ef það er ekki málfar ýslensku þjóðarinnar, þá er það blessaða frjálsræðið, eða allt þetta hinsegin fólk sem þarf að vera að taka svona mikið pláss í þjóðfélaginu. Eða þetta lið þarna á Alþingi. Tala nú ekki um allar druslurnar sem láta ekki fótboltamennina vera.

Málið er, að í hverju reiðu Trölli, býr bara lítill hræddur Trölli og um leið og maður fattar það, þá getur maður… svona umborið Tröllin aðeins betur.

Þegar félagsmenn Tröllasamfélagsins byrja að blása úr trompeti sálarinnar, þá er ég pínu glöð að þeir geti bara pikkað fast á lyklaborðið og þannig losað um gremjuna. Drukkið einn, tvo… tólf öllara með. Já eða te. Ég er glöð af því þá mögulega losna aðrir fjölskyldumeðlimir við að fá gremjuna inn á sig. Allavega dempast hún kannski mögulega þarna á þessu Interneti.

Gremjan finnur sér nebbla alltaf leið. Ef maður er duglegur að safna gremju, þá finnur hún sér dálítið harkalega leið út.

Næst þegar ég les harðort komment Trölla þá ætla ég að senda honum frjálslynt ljós fegurðar og fagnaðar. Kæfa hann í kærleik, í huganum. Af því ég er nefnilega yfir það hafin að setja orð mín á kommentakerfin. Er með svo dannaða ímynd. Hef haft mikið fyrir því að búa hana til. Að minnsta kosti egóið mitt.

Svo getum við kannski knúsast öll saman bara þarna í lokin eins og í alvöru ævintýri. Því rót vandans hjá Trölla er að honum vantar bara smá faðmlag og vitneskju um að hann sé nóg eins og hann er.

Hvað eru mörg R í því?

Höfundur er lífsleiknikennari, heilsuráðgjafi og sérlegur áhugamaður um mannlegt eðli.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×