Skoðun

Velferðarsamfélag – í alvöru!

Skúli Helgason skrifar

Við höfum metnað til að búa börnum í borginni eins góð skilyrði til þroska, uppvaxtar og menntunar eins og kostur er. Öllum börnum. Líka þeim sem flytjast hingað erlendis frá eða eiga foreldra með annað móðurmál en íslensku. Því er það ömurlegt þegar börn sem hafa kynnst okkar samfélagi, eignast hér vini og félaga og blómstrað í reykvísku umhverfi eru rifin upp og send úr landi á grundvelli ómannúðlegra reglna eins og við höfum ítrekað orðið vitni að á undanförnum misserum.

Á morgun á að senda úr landi sex manna fjölskyldu egypska - hjón með 4 börn á aldrinum 2-12 ára, þar af tvo nemendur Rewidu og Abdalla sem hafa stundað nám í Háaleitisskóla undanfarin misseri og unað hag sínum þar vel. Fjölskyldan kom hingað til lands fyrir rúmum 2 árum og sótti um alþjóðlega vernd en var hafnað þrátt fyrir að öryggi fjölskyldunnar verði stefnt í hættu ef þeim verður vísað aftur til Egyptalands.

Skólastjóri Háaleitisskóla og þúsundir landsmanna hafa mótmælt þessari ákvörðun harðlega sem grimmdarlegri og ómannúðlegri og börnin mega búast við því að missa föður sinn í fangelsi í heimalandinu vegna pólitískrar þátttöku hans og reyndar eru verulegar líkur á að líf hans verði í hættu. Mál af þessu tagi eru svartur blettur á samfélagi okkar enda brjóta þau á rétti barna sem við höfum heitið að standa vörð um samkvæmt alþjóðasamningum. Við höfum sem betur fer dæmi um að málum hafi verið snúið við á síðustu stundu en svo eru önnur brottvísunarmál sem gengu sinn gang til enda þar með talið brottvísun ófrískrar konu með lítið barn sem var vikið úr landi á 36. viku meðgöngu.

Við getum ekki kallað okkur velferðarsamfélag ef stjórnvöld koma svona fram við börn og fjölskyldur þeirra. Þess vegna vil ég skora á dómsmálaráðherra að grípa þegar inn í og koma í veg fyrir að þessi ágæta barnafjölskylda verði rifin upp með rótum úr íslensku samfélagi og send úr landi.

Höfundur er formaður skóla- og frístundaráðs og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×