Donald Trump Bandaríkjaforseti segir það skyldu sína að skipa nýjan Hæstaréttardómara án tafar. Lengi hafi það verið talið að skipun nýs dómara í Hæstarétt Bandaríkjanna sé eitt mikilvægasta hlutverk forsetans og því megi ekki bíða með það.
Þetta skrifaði Donald Trump á Twitter fyrr í dag en greint var frá því í gærkvöldi að Ruth Bader Ginsburg væri látin, 87 ára að aldri, eftir langa baráttu við krabbamein. Ginsburg sjálf hafði sagt að hennar helsta ósk væri að ekki yrði fyllt í stöðuna fyrr en að nýr forseti tæki við embætti.
.@GOP We were put in this position of power and importance to make decisions for the people who so proudly elected us, the most important of which has long been considered to be the selection of United States Supreme Court Justices. We have this obligation, without delay!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) September 19, 2020
Mitch McConnel, forseti öldungadeildar Bandaríkjaþings, hefur þegar sagt að tilnefni Donald Trump dómaraefni til að taka við sæti Ginsburg muni öldungadeildin greiða atkvæði um tilnefninguna. Demókratar hafa brugðist reiðir við og kalla nú eftir því að enginn verði skipaður í embættið fyrr en eftir embættistöku nýs forseta í janúar.
Dæmi eru um að beðið sé með að skipa nýjan dómara þar til eftir forsetakosningar ef stutt er í lok kjörtímabils en í febrúar árið 2016 lést hæstaréttardómarinn Antonin Scalia og neitaði McConnel, sem þá var einnig forseti öldungadeildarinnar, að láta greiða atkvæði um tilnefningu Barack Obama til Hæstaréttar. Hann sagði það ekki rétt þegar svo lítið væri eftir að kjörtímabili Obama, en árið 2016 var kosið til forseta í nóvember líkt og nú.