Bóluefnið veitir allt að 95 prósent vörn gegn covid-19 og leiddi úttekt Lyfja- og matvælastofnunnar Bandaríkjanna það í ljós að bóluefnið sé bæði öruggt og árangursríkt.
Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði í dag að fyrsta bólusetningin myndi fara fram „innan sólarhrings.“ Það virðist þó of metnaðarfull áætlun hjá Bandaríkjaforseta en Gustave Perna, sem sér um dreifingu efnisins fyrir Bandaríkjastjórn, sagði í dag á blaðamannafundi að fyrstu skammtar efnisins yrðu fluttir vestur um haf næsta sólarhringinn. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.
Efnið fer í dreifingu á 145 stöðum í Bandaríkjunum á mánudag, 425 stöðum á þriðjudag og á síðustu 66 staðina á miðvikudag sagði Perna í dag.
Bóluefni Pfizer er þegar í notkun á Bretlandi, Kanada, Barein og Sádi-Arabíu. Líkt og þar munu fyrstu skammtar efnisins vera gefnir heilbrigðisstarfsfólki og fólki sem býr á hjúkrunarheimilum. Þá er talið að bóluefnið fari í almenna dreifingu vestanhafs í apríl.
Kórónuveirufaraldurinn hefur herjað hart á Bandaríkin og hefur dauðsföllum farið fjölgandi dag hvern frá því í nóvember. Á miðvikudag létust meira en 3000 einstaklingar af völdum veirunnar, en dánartíðni hefur hvergi verið hærri.