Frá upphafi faraldursins hafa tæpar sautján milljónir smitast í Bandaríkjunum og 306 þúsund látist. Síðustu vikur hafa verið afar slæmar. Fleiri en hundrað þúsund tilfelli greinast á hverjum degi og þúsundir deyja.
Þau tímamót urðu á föstudag að lyfjaeftirlitið gaf græna ljósið á bóluefni Pfizer og Biontech við veirunni. Nú taka við afar umfangsmiklir flutningar enda er útlit fyrir að þetta verði umfangsmestu bólusetningar í sögu landsins.
Fyrstu þrjár milljónir skammta af bóluefninu eru nú á leið á 145 áfangastaði í dag. Hver og einn þarf tvo skammta af efninu. Flutningarnir sjálfir eru ekki eina hindrunin enda þarf að geyma efnið í miklu frosti.
Stjórnvöld áætla að um þrír af hverjum fjórum Bandaríkjamönnum verði búnir að fá bóluefnið eftir fimm til sex mánuði. Í forgangi verður þó að bólusetja 21 milljón heilbrigðisstarfsfólks og þrjár milljónir íbúa dvalarheimila.