Skoðun

Að­gerðir á tímum Co­vid

Hermann Ingi Gunnarsson skrifar

Margir hagsmunahópar hafa blandað sér í umræðuna um landbúnaðarmál og matvælaverð sem hefur verið ofarlega á baugi á liðnum dögum. Þar hafa sérhagsmunaöfl innflytjenda reynt að kasta rýrð á mikilvægi þess að standa vörð um fæðuöryggi og innlendan landbúnað og atvinnugreinina sem slíka. Atvinnugreinin á undir högg að sækja um þessar mundir vegna covid. Almennar aðgerðir munu ekki koma til móts við þær aðstæður sem eru á markaði og þess vegna leggur ríkisstjórnin fram tillögur sem eru í takt við aðgerðir annarra þjóða til að verja innlenda framleiðslu. Undir áróður Félags atvinnurekenda hafa Neytendasamtökin og ASÍ að einhverju leyti tekið, sem að mínum dómi er einkennilegt. Í landbúnaði starfa gríðarlega margir félagsmenn aðildarfélaga ASÍ. Er það hagur þessara félagsmanna að störf flytjist úr landi til landa þar sem laun og réttindi eru ekki ásættanleg á okkar mælikvarða ? Einhver verkalýðsfélög hafa kallað svona félagslegt undirboð. Neytendasamtökin virðast svo ekki hafa mikinn metnað fyrir því að fylgjast með verðmyndun á markaði því með þessari nýju aðferð við útboð á tollkvótum sem tekin var hér upp á árinu þá hefur, eins og kemur fram í greiningu Landsambands kúabænda, álagning innflytjenda hækkað, enda hafa innfluttar matvörur hækkað meira en íslensk matvæli.

Þetta kemur fram í skýrslu sem ASÍ vann fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sem ber heitið, Verðkönnun á innlendum og innfluttum landbúnaðarvörum, Desember 2019 – September 2020. Á því tímabili kemur fram að gengi krónunnar veiktist um 16,7%. Helstu niðurstöður skýrslunnar, eins og kemur fram í kynningu á heimasíðu ráðuneytisins, eru annars vegar að verð á innfluttum landbúnaðarvörum hafi í sumum tilfellum hækkað meira en verð á innlendum matvælum. Hins vegar að framboð hafi aukist, eða eins og þar segir: „Framboð eða úrval á þeim landbúnaðarvörum sem könnunin náði til hefur aukist töluvert á tímabilinu, bæði er varðar innfluttar og innlendar vörur. Framboð á innfluttum vörum jókst verulega í mörgum vöruflokkum, mest á innfluttu svínakjöti og fuglakjöti, en framboð af nautakjöti og ostum jókst einnig mikið. Framboð innlendra vara virðist í flestum tilvikum aukast á sama tíma.“ Aðferðafræðin ein og sér vekur margar spurningar. Hvernig var hægt að draga þá ályktun að framboð hafi aukist þegar ekki liggur fyrir framboð fyrri ára. Getur verið að árstíðabundið framboð á vöru sé að hafa áhrif á fjölda vöruflokka? Hvernig var þá birgðastaðan á þeim tveimur tímapunktum sem miðað var við?

Verð á innfluttu nauta- og svínakjöti og ostum hækkaði meira en innlendar afurðir

Hvað verðþróun varðar sýnir sig að í flestum tilvikum hækkuðu innfluttar vörur meira en innlendar, þó ekki undantekningalaust. Eftirfarandi tafla sýnir nokkrar helstu niðurstöður um verðþróun.

Í fyrsta lagi er það athyglisvert að samkvæmt töflunni hækkar verð á innfluttu nautakjöti, svínakjöti og ostum mun meira á tímabilinu en verð á innlendri framleiðslu. Þetta getur varla talist vísbending um að lægri tollar leiði sjálfkrafa til lægra matvöruverðs.

Verð á innfluttu grænmeti hækkar miklu meira en verð á innlendu grænmeti

Enn athyglisverðara er að samkvæmt skýrslunni hækkar verð á innfluttu grænmeti miklu meira en verð á innlendu grænmeti. Það er ekki síður áhugavert í því ljósi að engar magntakmarkanir eða uppboð á tollkvótum eru þegar kemur að innflutningi þessara vara. Raunar eru þær flestar með öllu tollalausar allt árið eða stærstan hluta þess. Innfluttar vörur hækkuðu sem sagt um 10─26% á þessum tíma á meðan verð á íslensku grænmeti fór frá því að hækka um 5% og niður í að lækka um 11%.

Breyting á útboðsleið er ekki bara „af því bara“

Meginástæðan fyrir því að ríkið fer í að breyta útboðsleið á tollkvótum er að reyna að draga úr innflutningi á landbúnaðarafurðum. Covid hefur gert það að verkum að hér vantar 2 milljónir ferðamanna til þess hesthúsa hvorttveggja innlendu og innfluttu matvælin. Markaðir hér á landi eru yfirfullir af landbúnaðarafurðum sem hefur leitt til mikils verðfalls á verði til bænda. Það verðfall hefur eingöngu orðið því það er erfiðara að koma vöru inn á markað. Með því að minnka innflutning freistast ríkið til að slá á þá spennu sem er á markaðnum og þar af leiðandi draga úr verulegu tekjufalli bænda. Ég blæs á þá fullyrðingu að sú breyting á útboðsreglum á tollkvótum muni snarhækka vöruverð, innflytjendur geta með auðveldum hætti dregið úr sinni álagningu og tekið á sig sams konar högg á markaði líkt og bændur eru að gera. Það er ekkert lögmál að innflytendur og smásalar þurfi að hafa fasta álagningu á sínum vörum enda samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar um afkomu eftir atvinnuvegum var svokallaður vergur rekstrarafgangur (EBIDTA) í heild- og smásölu árið 2017 liðlega 67 milljarðar króna. Þetta næstum tvisvar sinnum meiri vergur rekstrarafgangur en í sjávarútvegi hér á landi.

Á tímum sem þessum þurfa allir að taka á sig samdrátt í tekjum, það hafa bændur gert svo um munar og það geta innflytendur gert líka þannig að það bitni ekki á neytendum.

Höfundur er stjórnarmaður í Bændasamtökum Íslands.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×