Donald Trump forseti Bandaríkja hyggst stöðva allar komur innflytjenda til landsins vegna faraldurs kórónuveiru. Hann tilkynnti á Twitter-reikningi sínum í nótt að hann muni undirrita forsetatilskipun þess efnis. Í færslunni kveðst Trump grípa til umræddra aðgerða vegna "ósýnilega óvinarins", þ.e. kórónuveirunnar, og einnig til að tryggja atvinnuöryggi Bandaríkjamanna.
In light of the attack from the Invisible Enemy, as well as the need to protect the jobs of our GREAT American Citizens, I will be signing an Executive Order to temporarily suspend immigration into the United States!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) April 21, 2020
Forsetinn veitti ekki frekari upplýsingar um málið í færslunni og samkvæmt fréttum fjölmiðla vestanhafs er ekki ljóst hvenær eða hvort tilskipunin komi til framkvæmda. Ríkisstjórn Trumps hefur þegar gefið út að afgreiðslu nær allra vegabréfsáritana verði hætt á meðan faraldurinn geisar. Þá hefur Trump verið talsvert gagnrýndur fyrir boðaðar aðgerðir og sakaður um að nýta sér faraldurinn til að beita harðræði í málefnum innflytjenda.
Veiran hefur leikið Bandaríkin grátt en alls hafa nær 790 þúsund smitast í landinu og yfir 42 þúsund látist, samkvæmt tölum frá Johns Hopkins-háskólasjúkrahúsinu. Þá hefur efnahagslífið tekið skarpa dýfu, líkt og annars staðar í heiminum, en yfir 20 milljónir Bandaríkjamanna hafa sótt um atvinnuleysisbætur síðustu vikur.