Það varð endanlega ljóst um helgina að Aron yrði ekki með Íslandi í leikjunum tveimur við Portúgal í undankeppni EM, á miðvikudag og næsta sunnudag, né heldur á HM í Egyptalandi þar sem fyrsti leikur Íslands er einnig við Portúgal 14. janúar.
Þeir Aron og Frade hafa verið liðsfélagar hjá Barcelona síðan í sumar og léku með liðinu í undanúrslitum og úrslitum Meistaradeildar Evrópu á milli jóla og nýárs. Aron varð svo að draga sig til hlés vegna meiðsla en Frade er mættur til Portúgals til æfinga með portúgalska landsliðinu, sem ekki glímir við nein meiðslavandræði.
„Hann [Aron] er lykilmaður en engu að síður þá breytir þetta ekki leik íslenska liðsins. Íslendingar spila vel með og án hans. Þeir eru með leikmenn sem skilja handbolta og hafa mikil gæði, og geta reynst okkur erfiðir,“ sagði Frade við heimasíðu portúgalska handboltasambandsins.
Ísland vann síðast en Portúgal náði lengra
Frade skoraði tvö mörk fyrir Portúgal í 28-25 tapinu gegn Íslandi á EM fyrir ári síðan, þegar Aron skoraði fimm mörk. Portúgal komst þó lengra á mótinu og endaði í 6. sæti en Ísland í 11. sæti. Það er besti árangur sem Portúgalar hafa náð.
„Við verðum að einbeita okkur að okkur sjálfum og undirbúa okkur vel, en ef við spilum okkar leik og höldum einbeitingu í vörninni þá erum við með gæðin til að vinna báða leikina [í undankeppni EM],“ sagði Frade.
Ísland og Portúgal koma til með að berjast um efsta sæti 4. riðils í undankeppni EM en í riðlinum eru einnig Ísrael og Litáen. Ísland vann risasigur á Litáen í nóvember í sínum eina leik til þessa en Portúgal hefur unnið bæði Litáen og Ísrael. Tvö efstu lið riðilsins komast beint á EM og liðin í 3. sæti í fjórum riðlum af átta komast þangað einnig.
Á HM eru Ísland og Portúgal svo með Alsír og Marokkó í riðli. Þrjú efstu liðin komast áfram í milliriðla þar sem þau mæta þremur efstu liðum E-riðils, þar sem Frakkland, Noregur, Austurríki og Bandaríkin spila.