Pence hefur verið afar hliðhollur forseta sínum alla hans forsetatíð en brestir virðast hafa komið í samband þeirra eftir óeirðirnar í þinghúsinu síðasta miðvikudag, þegar Pence lýsti Biden réttkjörinn forseta Bandraríkjanna - þvert á kröfur Trumps um að gera það ekki. Sjálfur gaf Pence frá sér yfirlýsingu vegna staðfestingarinnar, þar sem hann sagði ekki geta tekið sér það vald að ákveða hvaða atkvæði skyldu talin.
„Samkvæmt minni dómgreind kemur sá eiður sem ég sór að stjórnarskránni í veg fyrir að ég taki mér það vald að ákveða hvaða atkvæði skulu talin og hver ekki,“ sagði Pence í yfirlýsingu sinni.
Svo virðist sem sú ákvörðun Pence hafi endanlega gengið frá sambandi þeirra, en Trump fór mikinn á Twitter í kjölfarið. Sakaði hann Pence um heigulshátt.
„Mike Pence hafði ekki hugrekki til þess að gera það sem var nauðsynlegt til að vernda land okkar og stjórnarskrá, að gefa ríkjum tækifæri til þess að staðfesta leiðréttar staðreyndir, ekki þær fölsku og röngu sem upphaflega átti að staðfesta,“ skrifaði hann og vísaði enn og aftur í meint kosningasvindl.