Ágúst Elí varð samtals sautján skot í leikjunum tveimur gegn Portúgölum í undankeppni EM 2022, eða fjörtíu prósent þeirra skota sem hann fékk á sig. Björgvin Páll Gústavsson og Viktor Gísli Hallgrímsson fengu einnig tækifæri í leikjunum en nýttu þau ekki jafn vel og Ágúst Elí.
„Hann virðist geisla af sjálfstrausti. Hann er hæfilega bilaður, lætin í honum, einbeitingin og hungrið í að hafa búrið, það er mikið. Ég held að það sé klárt að hann byrji fyrsta leik á mótinu. Það er nokkuð ljóst,“ sagði Ágúst í Seinni bylgjunni í gær.
„En það mun reyna á hann. Núna er komnar smá væntingar um að hann haldi áfram að standa sig jafnvel og hann hefur gert. Ég vona að hann standi undir því, enda búinn að sýna frábæra spilamennsku og það er virkilega mikil útgeislun og karakter í honum.“
Einar Andri Einarsson þekkir Ágúst Elí vel enda þjálfaði hann markvörðinn þegar hann stýrði FH. Hann segir að Ágúst Elí sé ört vaxandi markvörður og geti orðið enn betri.
„Hann er 25 ára og komast inn á besta aldur fyrir markverði. Hann er kominn með reynslu, spilað nokkur ár erlendis og var orðinn fyrsti markvörður í sínu liði á Íslandi mjög snemma. Hann hefur farið í gegnum stórmót og vonbrigði að fara ekki á stórmót. Þetta er spennandi tími sem hann er að fara inn í,“ sagði Einar Andri.

Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.