Skoðun

Erum við ekki öll í þessu saman?

Oddný G. Harðardóttir skrifar

Í lok desember á síðasta ári var heildaratvinnuleysi á landinu öllu 12,1%, alls 26.473 manns. Atvinnuleysi er mest á Suðurnesjum 23,3%. Næst mest er atvinnuleysið á höfuðborgarsvæðinu 11,9% og þar á eftir á Suðurlandi 11,5%.

Þörfum ekki mætt

Þau sveitarfélög sem verst verða úti í þessu ástandi verða að fá stuðning. Það þarf að gera þeim kleift að mæta breyttum þörfum íbúa í erfiðri stöðu og halda uppi atvinnustigi eins og hægt er, þrátt fyrir minnkandi tekjur. Á þessu hefur ríkisstjórnin ekki skilning og stjórnarliðar hafa hvað eftir annað fellt tillögur okkar jafnaðarmanna um aukin framlög til þeirra sveitarfélaga sem harðast hafa orðið úti. Öflug velferðarvakt verður að vera til staðar því aukaverkanir langtíma atvinnuleysis eru vel þekktar; félagslegar og heilsufarslegar ekki síður en efnahagslegar.

Skuldavandi blasir við 

Tekjufall heimila fylgir í kjölfar atvinnumissis og hætta er á að mikill skuldavandi taki við af atvinnukreppu ef ekkert verður að gert. Heimilin þurfa stuðning vegna tekjufalls og viðspyrnustyrk líkt og fyrirtækin. Verslunarmannafélag Reykjavíkur hefur lagt fram hugmynd að sértækum stuðningi sem ætlað er að tryggja afkomuöryggi heimila sem hafa orðið fyrir atvinnumissi og tekjufalli í heimsfaraldri. ASÍ hefur tekið undir þá hugmynd sem kynnt var stjórnvöldum fyrir nær þremur mánuðum. Forsætisráðherra svaraði fyrirspurn frá mér um málið í þinginu 14. desember á þann veg að hún hefði fengið kynningu á hugmyndunum VR og þær væru í nefnd. Ekkert hefur spurst til starfa þessarar nefndar nú sex vikum síðar og fólkið sem þarf að bera þyngstu byrgðarnar í heimsfaraldri fær ekki stuðning ríkisstjórnarinnar. Fyrir vikið er að skapast ófremdarástand.

Langtíma atvinnuleysi 

Því lengur sem fólk er án atvinnu því erfiðari verður staða þeirra fjárhagslega og félagslega. Sumir missa heilsuna líka. Í lok desember höfðu 4.213 manns verið atvinnulaus lengur en 12 mánuði í djúpri atvinnukreppu þar sem enga vinnu er að fá.

Það fólk sem búið hefur við atvinnuleysi í meira en 12 mánuði hefur ekki fengið þriggja mánaða lengingu á tekjutengda bótatímabilinu. Það er vegna þess að ríkisstjórnin ákvað að þá búbót fengju aðeins þeir sem höfðu misst vinnuna í mars 2020. Stjórnarliðar felldu tillögu Samfylkingarinn um að allir atvinnulausir fengju þessa viðbót og létu eins og þær um 10.000 manneskjur sem voru atvinnulausar í febrúar væru betur staddar en hitt fólkið sem missti vinnuna í mars. Raunin er auðvitað sú að fólk er því verr sett sem það hefur lengur verið án vinnu.

Á næstu mánuðum mun hluti þeirra sem hafa verið atvinnulaus lengur en 12 mánuði klára tímabil atvinnuleysisbóta. Þau voru 87 í desembermánuði samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun. Á næstu mánuðum mun vel á annað hundrað manns vera í þessari stöðu á Suðurnesjum einum og enn fleiri ef landið allt er undir. Þetta fólk verður að leita á náðir sveitarfélaga eftir fjárhagsaðstoð og til hjálparstofnanna eftir nauðþurftum. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er í öllum tilfellum mun lægri en atvinnuleysisbæturnar og í sumum sveitarfélögum helmingi lægri. Við þær aðstæður sem nú eru blasir sárafátækt við því fólki sem hvorki fær atvinnu né atvinnuleysisbætur.

Gegn ójöfnuði 

Við í Samfylkingunni jafnaðarmannaflokki Íslands mótmælum harðlega aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar sem sýnir ástandinu algjört skilningsleysi. Við krefjumst aðgerða strax sem vinna gegn vaxandi ójöfnuði í heimsfaraldri og að byrgðum verði dreift. Gefum eftir getu og þiggjum eftir þörfum. Erum við ekki öll í þessu saman?

Höfundur er þingflokksformaður Samfylkingarinnar




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×