Þetta kemur fram í bréfi frá Jamie Raskin, þingmanni Demókrataflokksins, til fyrrverandi forseta. Þar segir að Trump hafi hafnað þeim ásökunum sem settar voru fram í ákærunni, þrátt fyrir „augljós og yfirgnæfandi“ sönnunargögn sem væru fyrir hendi. Í ljósi andmæla hans væri honum boðið að bera vitni við réttarhöldin.
🚨HOUSE MANAGERS ASK TRUMP TO TESTIFY 🚨 pic.twitter.com/uj6k2iVtuY
— Mike DeBonis (@mikedebonis) February 4, 2021
Trump er hvattur til þess að leggja fram vitnisburð sinn og svara spurningum um hann þann 8. febrúar næstkomandi, en ekki seinna en 11. febrúar.
„Forsetarnir Gerald Ford og Bill Clinton gáfu vitnisburð á meðan þeir voru í embætti og Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu á síðasta ári að þú nytir ekki friðhelgi frá málsókn á meðan þú situr í embætti, svo það er enginn vafi um að þú getir borið vitni í þessum réttarhöldum,“ segir í bréfinu.
„Ef þú hafnar þessu boði áskiljum við okkur allan rétt, meðal annars þann rétt að neitun þín styðji við ályktanir varðandi athafnir þínar (og athafnaleysi) sem eru þér í óhag.“
Trump var ákærður fyrir embættisbrot öðru sinni þann 13. janúar, sjö dögum áður en hann lét af embætti. Snúa ákærurnar einna helst að því að hvetja til uppreisnar og hlutverki forsetans í því að æsa fólk upp, sem á endanum braut sér leið inn í þinghús Bandaríkjanna þann 6. janúar, með því markmiði að stöðva formlega staðfestingu úrslita forsetakosninganna í nóvember.
Hann er eini forseti Bandaríkjanna sem hefur verið ákærður fyrir embættisbrot tvisvar sinnum.