Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu. Annmarkar voru á rafrænni fyrirlögn prófs í íslensku þann 8. mars síðastliðinn og var tekin ákvörðun um að fresta ensku- og stærðfræðiprófum um nokkra daga. Fram kemur í tilkynningunni að að vel athuguðu máli telji Menntamálastofnun ekki öruggt að rafræn fyrirlögn prófanna muni ganga snuðrulaust fyrir sig, enda hafi þjónustuaðili prófakerfisins ekki brugðist við aðstæðum með fullnægjandi hætti.
Nemendum verður hins vegar gefið tækifæri til að taka könnunarpróf í greinunum 17. mars – 30. apríl næstkomandi en verður það valkvætt og ber Menntastofnun að tryggja þá framkvæmd. Skipulag prófanna verður undirbúið í samráði við skólasamfélagið og miðast við lágmarksröskun á skólastarfi.
„Núverandi fyrirkomulag samræmdra prófa er komið á endastöð. Grundvallarbreyting á samræmdu námsmati hefur verið í undirbúningi, þar sem markmiðið er að tryggja betur hagsmuni nemenda og þarfir þeirra fyrir skýrt námsmat,“ segir Lilja Alfreðsdóttir í tilkynningunni.
Unnið hefur verið að tillögum um framtíðarsýn fyrir samræmt námsmat og skilaði vinnuhópur skýrslu um málið í fyrra. Þar lagði hópurinn meðal annars til að þróuð yrðu heildstæð matstæki fyrir skóla, í mörgum námsgreinum, sem koma skyldu í stað samræmdra könnunarprófa.