„Í morgun fóru vísindamenn í könnunarflug yfir gosstöðvarnar til að meta umfang eldgosins enn frekar. Það er mat vísindamanna að gosstöðvarnar séu litlar og lítil framrás hefur verið frá því í gær, talið er að gosið ógni ekki mannvirkjum eða byggð,“ segir í tilkynningunni.
„Í framhaldi af stöðufundi nú í morgun þar sem farið var yfir gögn vísindamanna hefur Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum ákveðið að lækka almannavarnastig úr neyðarstigi niður á hættustig.“

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, sagði í aukafréttatíma Stöðvar 2 núna um klukkan 10 að um væri að ræða lítið gos og tiltölulega hættulaust.
Hraunið komist ekki út úr Geldingadalnum og byggð eða mannvirkjum stafi því engin ógn af hraunflæði að svo stöddu.
Þar að auki er lítil hætta á því að gasmengun fari yfir hættumörk í byggð, að sögn Víðis. Á næstunni munu vísindamenn fara á staðinn til að efnagreina hraunið og meta stöðuna betur í framhaldinu. Ekki er mælt með því að fólk reyni að komast á staðinn. Gossvæði eru alltaf hættuleg og til marks um það rifjar Víðir upp að önnur sprunga hafi skyndilega opnast í Fimmvörðuhálsgosinu.