Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum gengu lokanir vel í gær og einnig gekk vel að rýma svæðið, sem gert var á miðnætti. Nokkur hálka var á svæðinu og nokkuð um hálkuslys.
Kona handleggsbrotnaði við gosstöðvarnar og var hún sótt af þyrlu Landhelgisgæslunnar og flutt á sjúkrahús.
Annar gestur, karlmaður á fimmtugsaldri, rann til á gönguleiðinni og var sóttur af björgunarsveitarmönnum sem komu honum í sjúkrabíl sem er staðsettur á bílastæðunum sem útbúin hafa verið. Önnur óhöpp voru minniháttar.

Töluverður fjöldi fólks var á svæðinu í gær og nú hafa reglur um einstefnuakstur verið afnumdar á Suðurstrandarvegi frá austurs frá Grindavík og því er nú bannað að leggja bílum í vegarkantinum eins og tíðkast hefur. Þess í stað á fólk að nota bílastæðin.
Miðað við veðurspá dagsins ætti að viðra nokkuð vel til göngu og má því aftur búast við miklum fjölda á svæðinu í dag. Samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands verður léttskýjað í öllum landshlutum og sólin komin nægilega hátt á loft til að veita smá yl.
Staðan á gosinu sjálfu er svo annars svipuð og verið hefur samkvæmt náttúruvárvakt Veðurstofunnar og lítið um skjálfta á svæðinu líkt og undanfarna daga. Hvorki hefur myndast nýr gígur né ný sprunga á gossvæðinu.