Stjórnarskrá Filippseyja meinar Duterte forseta að bjóða sig fram til endurkjörs í kosningunum á næsta ári. Í könnuninni um hvern svarendur vildu helst fá sem næsta forseta sögðust 27% vilja Söru Durerte-Carpio, borgarstjóra í Davao og dóttur forsetans umdeilda, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar. Þetta er önnur könnunin í röð þar sem Durterte-Carpio er eftirsóttasti frambjóðandinn.
Sjálf hefur Duterte-Carpio sagt að engar líkur séu á því að hún bjóði sig fram og faðir hennar hefur sömuleiðis sagt að það ætti hún að láta ógert.
Fáir hafa þó trú á sú verði raunin í ljósi mikillar virkni Duterte-Carpio á samfélagsmiðlum og herferðar til að fá hana til þess að bjóða sig fram.
Á eftir Duterte-Carpio í könnunni kom Ferdinand „Bongbong“ Marcos yngri, sonur og nafni fyrrverandi einræðisherra Filippseyja með þrettán prósent stuðning. Grace Poe, öldungadeildarþingmaður sem tapaði fyrir Duterte árið 2016, var í þriðja sæti. Enginn þeirra þrettán sem voru nefndir í könnuninni hafa lýst yfir áhuga á framboði formlega.
Duterte forseti er umdeildur og ekki aðeins fyrir fúkyrðaflaum sem frá honum streymir gjarnan. Áætlað er að þúsundir manna hafi verið teknir af lífi utan dóms og laga í stríði öryggissveita ríkisins gegn fíkniefnum í landinu í stjórnartíð Duterte. Ríkisstjórn hans snöggreiddist íslenskum stjórnvöldum þegar þau stóðu að ályktun um að aftökurnar yrðu stöðvaðar á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í fyrra.