Ríkissaksóknarar Manhattan og saksóknarar í New York hafa lengi rannsakað fyrirtæki Trump, sem heitir Trump Organization, og hafa fjölmiðlar vestanhafs sagt þær rannsóknir meðal annars snúa að meintum fjársvikum fyrirtækisins.
Þær hafi beinst að því hvort forsvarsmenn fyrirtækisins hafi dregið úr virði eigna þess til að greiða lægri skatta, og gert mikið úr virði eignanna til að fá betri lán og því hvort skattar hafi verið greiddir af hlunnindum sem æðstu stjórnendur fyrirtækisins fengu.
Sjá einnig: Fyrirtæki Trump hefur til morguns að forðast ákæru
Blaðamaður AP fréttaveitunnar ræddi við Ron Fischetti, einn lögmanna fyrirtækis Trumps sem sótti þó ekki fundinn í dag. Hann segir að svokallaður „grand jury“ sé nærri því að komast að niðurstöðu um það hvort ákæra eigi fyrirtækið.
Von sé á niðurstöðu í þessari viku.
Þetta ferli felur í sér að hópur almennra borgara er fenginn til að fara yfir gögn saksóknara og segja til um hvort þeim þyki líklegt að þau myndu sakfella viðkomandi aðila í raunverulegum réttarhöldum, á grunni þeirra gagna sem fyrir liggja.
Segir nokkra starfsmenn í hættu á að verða ákærðir
Fischetti sagði þó að saksóknarar hefðu tilkynnt honum að möguleg ákæra gegn Trump sjálfum væri ekki til skoðunar í þessu ferli. Engin ákvörðun um slíkt yrði tekin í þessari viku en forsetinn fyrrverandi gæti þó verið ákærður seinna meir.
„Ég get ekki sagt að hann sé laus allra mála enn,“ sagði Fischetti.
Í frétt AP segir að viðræður sem þessar séu yfirleitt formsatriði og breyti sjaldan sem aldrei stefnu rannsókna og hafi lítil áhrif á mögulegar ákærur.
Fischetti segir mögulegar ákærur snúa að nokkrum starfsmönnum Trump Org, sem hafi ekki greitt skatta af hlunnindum og mögulega félaginu sjálfu. Allen Weisselberg, fjármálastjóri þess til fjölda ára, er meðal þeirra sem verða mögulega ákærðir, samkvæmt heimildum fjölmiðla vestanhafs.