Staðarmiðilinn Akureyri.net greindi fyrst frá en í samtali við Vísi segir Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, að grunur hafi vaknað um að einn væri smitaður í skipinu.
Sá grunur hafi verið staðfestur um hádegi í dag og verið sé að fara yfir hverjir um borð þurfi að fara í sóttkví vegna smitsins. Um borð eru 470 farþegar og 445 eru í áhöfn.
Skipið kom til hafnar á Akureyri í morgun en tekin var ákvörðum um þegar grunur um smit kom upp að engum yrði hleypt í land að svo stöddu. Áætlað er að skipið haldi austur á bóginn nú síðdegis.
Eitt smit er einnig um borð í Viking Sky, systurskipi Viking Jupiter, sem verið hefur á verð við strendur Íslands undanfarna daga. Aðgerðastjórn Lögreglustjórans á Austurlandi hefur hugsanlegt sóttvarnarbrot til rannsóknar eftir að farþegar skemmtiferðaskips fóru í land á Djúpavogi án leyfis.