Skoðun

Fjöl­breytt at­vinnu­líf er öruggt at­vinnu­líf

Elva Hrönn Hjartardóttir skrifar

Það er okkur öllum mikilvægt að atvinnulífið hér á landi sé öruggt og að við getum sem flest tekið þátt í því. Hluti af því verkefni er að tryggja að atvinnulífið sé fjölbreytt. Síðustu ár hefur ferðaþjónusta á Íslandi blómstrað og verið ómetanlegur þáttur í efnahagskerfinu okkar eftir hrun og mörg störf hafa skapast hér vegna hennar. Það skyldi því engan undra hve mikið traust við höfum lagt á þessa atvinnugrein og hve miklar væntingar við höfum borið til áhrifa hennar á efnahagskerfið.

En kannski höfum við treyst um of á þessa einu atvinnugrein síðustu ár. Heimsfaraldurinn hefur sýnt okkur hvað það er mikilvægt að vera við öllu búin. Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Því er gríðarlega mikilvægt að byggja hér upp fjölbreytt atvinnulíf sem byggir á grænum og sjálfbærum áherslum og gerir sem flestum kleift að taka þátt í því.

Vinstri græn hafa frá stofnun hreyfingarinnar talað fyrir fjölbreyttu atvinnulífi og mikilvægi þess að setja ekki öll eggin í sömu körfuna. Að stórefla umgjörð í kringum nýsköpun og rannsóknir er liður í því. Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur þannig aukið framlög til nýsköpunar á kjörtímabilinu um 73% og hafa framlögin aldrei verið hærri. Þá hafa framlög til rannsóknasjóða heldur aldrei verið hærri.

Á þessari braut viljum við í VG halda áfram; með skýra stefnu að leiðarljósi og alvöru aðgerðir sem skila árangri.

Setjum ekki öll eggin í eina körfu

Við erum öflugt og fjölbreytt samfélag í stöðugri þróun og atvinnulífið þarf að þróast í takt við það. Við þurfum vissulega að byggja upp ferðaþjónustuna á ný, en við þurfum að vera sjálfbærari á öllum sviðum samfélagsins. Hvort sem það er í ferðaþjónustu, matvælaframleiðslu eða annarri atvinnugrein eða hvort sem um neysluvenjur okkar er að ræða.

Við þurfum að læra af reynslunni og laga okkur að þeim raunveruleika sem við búum við núna. Nú er tækifærið til að gera enn betur. Með fjölbreytni og sjálfbærni að leiðarljósi öðlumst við hér öruggara atvinnulíf.

Höfundur er frambjóðandi Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmi suður og stjórnmálafræðingur.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×