Skoðun

Styðjum við lítil og meðalstór fyrirtæki

Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir skrifar

Engin flokkur hefur jafn afgerandi afstöðu og Miðflokkurinn til stuðnings lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem með sönnu eru talin hryggjastykkið í íslensku atvinnulífi. Það sem meira er, Miðflokkurinn telur mikilvægt að ráðast í kerfisbreytingar sem skili aukinni skilvirkni og framleiðni hjá hinu opinbera. Því er nauðsynlegt að minnka ríkisbáknið, einfalda regluverk og draga úr kerfisræði á Íslandi. Þannig er hægt að draga úr álögum á almenning og lítil og meðalstór fyrirtæki fá aukið frelsi til að skapa ný störf og ný verðmæti. Stjórnvöld eiga að þjónusta almenning, ekki öfugt.

Miðflokkurinn leggur áherslu á að rekstrarstaða og samkeppnisstaða lítilla og meðalstórra fyrirtækja verði bætt með skattalegum hvötum og einfaldara regluverki þannig að ekki séu lagðar sömu kvaðir á lítil fyrirtæki og þau stærri. Miðflokkurinn leggur áherslu á að stjórnvöld megi ekki innleiða nýtt íþyngjandi regluverk nema tvöfalt fleiri íþyngjandi reglur verði afnumdar samtímis í samræmi við stefnu ríkisstjórnar áranna 2013-2016.

Skattasýki Samfylkingarinnar

En núna á lokaspretti kosningabaráttunnar má sjá margt spaugilegt í hinum pólitíska áróðri. Þannig má sjá í auglýsingum Samfylkingarinnar mynd af einum frambjóðanda flokksins og texta þar við hlið sem segir „Minna vesen: Styðjum við lítil og meðalstór fyrirtæki.“

Hér fara greinilega ekki saman loforð og veruleiki en á sama tíma talar Samfylkingin fyrir 1,5% eignarskatti en óhætt er að segja að sá skattur leggst fyrst og fremst á eigendur þessa sömu litlu og meðalstóru fyrirtækja og gengur því þvert gegn innihaldi auglýsingarinnar.

Hvað fela eignarskattar í sér? Jú, að eigendur þurfa að taka meira fé út úr fyrirtækjum til að standa skil á sköttum, í stað þess að fyrirtækin verji þeim fjármunum til fjárfestinga sem auka verðmætasköpun í samfélaginu. Ef hagnaður fyrirtækjanna er ekki nógur eða fyrirtækin vilja ekki draga úr fjárfestingum þá hefur þessi skattheimta í för með sér aukna skuldsetningu fyrirtækjanna sem gerir þau áhættusamari til lengri tíma litið – þjóðin hefur slæma reynslu af of mikilli skuldsetningu fyrirtækja. Fyrir utan það að hagnaður af sölu hlutabréfa er skattlagður, þá eru tekjur fyrirtækja skattlagðar og tekjur af fjáreign í fyrirtækjum eru skattlagðar. Með eignarskatti á eigendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja er verið að skattleggja þessar sömu tekjur um alla framtíð og verðfella eignir.

Miðflokkurinn er eina vörnin gegn svona árásum á eigendur lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Höfundur skipar 2. sætið á lista Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×