Skoðun

Eirík Björn á þing

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir skrifar

Eitt af því ánægjulega eftir langan tíma í pólítík er að kynnast öflugu fólki um allt land. Sumir eru eftirminnilegri en aðrir. Það á við um Eirík Björn Björgvinsson oddvita Viðreisnar í Norðausturkjördæmi. Ég kynntist Eiríki Birni fyrst þegar hann var bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs. Ég var þá mennta- og menningarmálaráðherra og man vel að eftir því var tekið hversu ákveðinn og staðfastur Eiríkur var í því að berjast fyrir hagsmunum bæjarfélagsins og Austurlands alls. Það sama gilti þegar hann tók við sem bæjarstjóri Akureyrar. Alltaf var hann glaðsinna en einbeittur fyrir hönd íbúa svæðisins og umbjóðenda sinna.

Reynsla af störfum á sveitarstjórnarstigi er ómetanleg fyrir þingmenn en fáir hafa jafn umfangsmikla þekkingu og góða reynslu af sveitarstjórnum víðs vegar um Norðausturland en Eiríkur Björn. Það er því gott veganesti fyrir hann þegar hann sest á þing fyrir íbúa Norðurlands.

Eiríkur Björn er þeim kostum gæddur að vera allt í senn sanngjarn, ástríðufullur, ýtinn og jafnvel þrjóskur þegar kemur að því að fylgja málum eftir. Hann skilur þær áskoranir sem íbúar Norðurlands standa frammi fyrir og veit hvaða mál þarf að setja á oddinn, hvort sem það eru samgöngur, menntastofnanir og heilbrigðisþjónustu.

Verkefnin eru mörg og sum hver risavaxin sem þarf að ráðast í fyrir Norðurland. Eiríkur Björn hefur verið óþreytandi við að tala fyrir eflingu heilbrigðisþjónustu á svæðinu. Hefur hann ekki síst vakið athygli á því mikilvæga hlutverki sem sjúkrahúsið á Akureyri hefur sem stærsta heilbrigðisstofnunin utan höfuðborgarsvæðisins. „Þorgerður, það er búið að vera baráttumál okkar um margra ára skeið að sjúkrahúsið verði styrkt sem miðstöð sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu á Norður- og Austurlandi og nú er kominn tími á að það verði að veruleika“, sagði Eiríkur með leiftrandi augum við mig á dögunum. Ekkert múður hér.

Hann hefur jafnframt verið ötull við að vekja athygli á mikilvægi stuðnings við geðheilbrigðisþjónustu svæðisins eins og við Geðverndarfélag Akureyrar og samstarf bæjarins við Rauða krossinn um þjónustu við geðfatlaða.

Eiríkur Björn hefur einnig ítrekað mikilvægi stækkun flugstöðvarinnar á Akureyri sem hefur verið baráttumál í mörg ár þannig að efla megi millilandaflug, styrkja enn frekar við ferðaþjónustu á svæðinu og skapa aukin tækifæri í atvinnulífi Norðurlands. Eitt af helstu baráttumálum Eiríks Björns sem bæjarstjóri á Akureyri var einmitt að undirstrika mikilvægi Norðurslóða en það hefur skilað Akureyri og Norðurlandi ótvíræða forystu á Íslandi í þeim málaflokki með þeim stofnunum og verkefnum sem nú eru starfrækt á Akureyri.

Eirík Björn hef ég vart hitt án þess að hann fari yfir málefni og mikilvægi Háskólans á Akureyri sem er ekki einungis ein best heppnaða byggðaaðgerð á Íslandi heldur er Háskólinn einnig dýrmætur fyrir rannsóknir og alla þekkingaröflun í samfélaginu. Stækkun og markviss styrking Háskólans er allra hagur.

Ég er sannfærð um að fólk á Norðurlandi fær ekki öflugri málsvara á Alþingi en Eirík Björn. Hvort sem um ræðir fyrrnefnd verkefni eða önnur mikilvæg eins og uppbygging raforkuöryggis fyrir Norðurland, þátttaka í umhverfisvænum verkefnum eins og Vistorka, nýsköpun, jafnrétti eða hreinn og klár jöfnuður í þjónustu í samanburði við aðra íbúa landsins.

Það þarf einfaldlega manneskju eins og Eirík Björn inn á þing. Hann hefur þá reynslu, þekkingu og innsýn sem er nauðsynleg til að berjast fyrir hagsmunum landshlutans. Því hvet ég ykkur öll til þess að gefa Eiríki Birni og framtíðinni tækifæri í komandi kosningum. Kjósum Viðreisn með því að setja X við C.

Höfundur er formaður Viðreisnar og oddviti flokksins í Suðvesturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×