Fréttin hefur verið uppfærð eftir að þjónustan komst aftur í lagi. Textinn hér fyrir neðan var skrifaður tæpri klukkustund áður en það gerðist.
Notendur Facebook, Messenger, Instagram, Whatsapp og Oculus VR urðu fyrst varir við að eitthvað væri ekki með felldu skömmu fyrir klukkan fjögur síðdegis að íslenskum tíma. Ekkert hefur komið fram um hvað olli því en grunur leikur á að um að vandamálið tengist svonefndu lénsheitakerfi (DNS). Kerfið „þýðir“ slóðir eins og facebook.com yfir á IP-tölu til að beina netverjum á réttan stað.
Bandaríska viðskiptafréttastöðin CNBC segir að truflunin sé sú umfangsmesta á Facebook frá árinu 2008. Hún hafði áhrif á um áttatíu milljónir notenda. Nú hefur Facebook hins vegar um þrjá milljarða notenda.
Truflunin virðist hafa haft mikil áhrif á starfsemi innan höfuðstöðva Facebook. Vefmiðilinn The Verge segir að innri kerfi fyrirtækisins liggi niðri og starfsmenn hafi brugðið á það ráð að nota tölvupóstforritið Outlook frá Microsoft til þess að hafa samskipti sín á milli. Þeir geti þó ekki tekið við tölvupóstum utan fyrirtækisins.
Verkfræðingar hafa verið sendir í gagnaver Facebook í Bandaríkjunum til þess að reyna að leysa vandamálið.
Verge segir að þrátt fyrir miklar vangaveltur um mögulegt tölvuinnbrot hjá Facebook þá bendi ekkert til þess ennþá að nokkuð saknæmt búi að baki trufluninni.
New York Times segir að Facebook hafi lengi stefnt að því að samþætta tæknina að baki helstu samfélagsmiðla sinna undanfarin ár. Heimildir blaðsins innan öryggisteymis Facebook herma að ólíklegt sé að tölvuárás valdi truflununum nú þar sem kerfin að baki ólíkra miðla þess séu enn svo ólík að ólíklegt sé að eitt tölvuinnbrot hefði áhrif á þá alla.
Facebook átti þegar í vök að verjast eftir að uppljóstrari innan fyrirtækisins greindi frá skýrslum sem gerðar hefðu verið fyrir samfélagsmiðlarisann sem sýndu fram á neikvæð áhrif hans á samfélagið og að Instagram væri skaðlegt fyrir geðheilsu táninga.