Lífið

Sér eftir að hafa farið með hlut­verk trans­konu í Dönsku stúlkunni

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Eddie Redmayne fór með hlutverk transkonunnar Lili Elbe í kvikmyndinni The Danish Girl. Hann segist hún telja það hafa verið mistök.
Eddie Redmayne fór með hlutverk transkonunnar Lili Elbe í kvikmyndinni The Danish Girl. Hann segist hún telja það hafa verið mistök. Getty/Eamonn M. McCormack

Leikarinn Eddie Redmayne segist sjá eftir að hafa farið með hlutverk transkonu í bíómyndinni The Danish Girl. Í dag myndi hann ekki taka að sér hlutverkið.

Leikarinn var tilnefndur til Óskarsverðlaunanna árið 2016 fyrir leik sinn í kvikmyndinni en þar fór hann með hlutverk Lili Elbe, fyrstu transkonunnar sem gekkst undir kynleiðréttingaraðgerð. 

Kvikmyndin fékk mikið lof á sínum tíma en var þó gagnrýnd af sumum, sérstaklega hinsegin-aktívistum sem var misboðið að Redmayne færi með hlutverkið en ekki trans-leikkona. 

„Í dag myndi ég ekki taka að mér þetta hlutverk. Ég meinti ekkert illt þegar ég lék í myndinni en ég held að þetta hafi verið mistök,“ sagði Redmayne í viðtali við The Sunday Times um helgina. 

„Óánægjan með ráðningu í hlutverkin snýr auðvitað að stærra vandamáli vegna þess að margir hafa ekki einu sinni sæti við borðið,“ sagði Redmayne. 

The Danish Girl kom út aðeins mánuðum eftir að Redmayne vann Óskarsverðlaun fyrir túlkun hans á eðlisfræðingnum Stephen Hawking, sem hann lék í kvikmyndinni The Theory of Everything.

Hann hefur einnig verið gagnrýndur fyrir að hafa tekið að sér hlutverk Hawking, sem greindist ungur með hreyfitaugungahrörnun. Töldu margir fatlaðir aðgerðasinnar að fötluð manneskja hefði átt að fara með hlutverkið. Líkt og með transfólk hefur fatlað fólk lítið komist að borðinu í Hollywood og er sjaldan ráðið í hlutverk. 

Lili Elbe var danskur listmálari og var meðal þeirra fyrstu sem gekkst undir kynleiðréttingaraðgerð. Hún var 48 ára gömul þegar hún gekkst undir aðgerðina árið 1930 en lést vegna flækja sem komu upp við legígræðsluaðgerð árið 1931. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.