Ný ríkisstjórn er tekin við völdum skipuð sömu flokkum og undanfarin fjögur ár. Að þessu sinni er víða nýtt fólk komið í brúna og nýtt skipurit hefur tekið gildi í stjórnarráðinu hvað ýmsa málaflokka varðar. Við forystufólk Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu óskum nýjum ráðherrum og alþingismönnum öllum til hamingju með að nýtt kjörtímabil sé hafið með öllum þeim áskorunum sem við blasa.
Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er horft til ýmissa mikilvægra þátta er varða velferð þjóðarinnar og stiklað á mörgum mikilvægum þáttum sem horfa á til á þeim vettvangi á næstu fjórum árum. Það var ánægjulegt fyrir okkur í velferðarþjónustunni að sjá í stjórnarsáttmála skýra framtíðarsýn og velvilja í garð okkar starfsemi. Nú er komið fram fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár og er það von okkar að þegar þingið hefur lokið umfjöllun og breytingum á því, þá sjáist þar skýr og einbeittur vilji til að standa vel að rekstri fyrirtækja í velferðarþjónustu sem og að byggja upp til framtíðar.
Hjartað í þeirri þjónustu sem við viljum veita er einstaklingurinn sjálfur. Hann á að hafa aðgang að samþættri þjónustu, heimahjúkrun og stuðningsþjónustu. Við fögnum því að í nýjum stjórnarsáttmála er tekið undir þessa nálgun. Eitt stærsta og mikilvægasta verkefnið er sjá þetta raungerast með því að koma í framkvæmd nýrri stefnu í málefnum aldraða. Við sem störfum í velferðarþjónustu vonum að þetta geti gerst hratt og örugglega í samræmi við það sem kemur fram í nýjum stjórnarsáttmála.
Ágætu ráðherrar og alþingismenn, við í Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, SFV, erum nú sem fyrr til samstarfs og þjónustu reiðubúin, því saman getum við meira. Innan þeirra stofnana og fyrirtækja sem að Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu standa, er mikill mannauður og sérþekking á viðfangsefnum heilbrigðiskerfisins. Það er frá okkar fólki og fyrirtækjum sem lausnirnar og nýsköpunin í þessum málaflokki mun koma. Þannig berum við því miklar vonir til þess að fá að taka þátt í starfi og jafnvel leiða vinnu verkefnisstjórnar sem boðað er að skipuð verði til að koma verkefninu í framkvæmd. Með framsýnum stjórnarsáttmála hafið þið kastað boltanum. Fagfólkið í velferðarþjónustunni er tilbúið að grípa hann.
Björn Bjarki er formaður stjórnar Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV), María Fjóla er varaformaður stjórnar SFV og Sigurjón er framkvæmdastjóri SFV.