Hann segir þó ekki ljóst af hvaða stærðargráðu slík innrás verði og varar Pútín við því að reyna á samstöðu vesturlanda, ef hann geri það muni hann gjalda þess dýru verði.
Þetta kom fram á blaðamannafundi sem forsetinn hélt í Hvíta húsinu í nótt.
Rússar hafa þráfaldlega neitað því að innrás vofi yfir en engu að síður hafa þeir safnað upp miklu liði við landamærin að Úkraínu, bæði Rússlandsmegin en einnig í Hvíta-Rússlandi.
Talið er að um hundrað þúsund rússneskir hermenn séu í grennd við landamærin í dag.
Biden var heldur óskýr í máli á fundinum en á honum mátti skilja að viðbrögð NATO muni fara eftir því hve viðamikil innrás Rússa verði í landið.
Í tilkynningu frá talskonu Hvíta hússins sem send var út eftir fundinn kom þó skýrt fram að ef Rússar ráðist með einhverjum hætti inn fyrir landamæri Úkraínu verði því mætt af hörku af hálfu Bandaríkjanna og bandamanna þeirra.