Rússnesk yfirvöld hafna því alfarið að þau stefni á að ráðast inn í Úkraínu en um 100 þúsund hermenn eru nú staðsettir á landamærunum.
Að því er kemur fram í frétt Reuters um málið var símtalið milli leiðtoganna í dag árangurslítið en Biden sagði við Pútín að Vesturveldin myndu bregðast við af hörku ef Rússar ákveða að ráðast inn í Úkraínu.
Pútín sagði á móti að Bandaríkin hefðu ekki tekið nægilega inn í reikninginn þeirra áhyggjur, meðal annars um aðgerðir NATO og útbreiðslu þeirra.
Bandarísk stjórnvöld beindu því í gær til bandaríska ríkisborgara í Úkraínu til þess að yfirgefa landið hið snarasta en Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi forsetans, sagði ógnina af innrás yfirvofandi og því skynsamlegt að fara.
Fleiri lönd hafa þá hvatt ríkisborgara sína í Úkraínu til þess að fara annað, meðal annars Bretland, Holland, Lettland, Japan, Þýskaland og Suður-Kórea. Þá hefur utanríkisþjónustan hvatt Íslendinga í landinu til þess að láta vita af sér og huga vel að ferðaskilríkjum sínum.
Rússnesk stjórnvöld hafa einnig tekið ákvörðum um að hagræða utanríkisþjónustu sinni í Úkraínu með því að fækka starfsfólki í sendiráði sínu í Kíev.