Lífið

Fordæma kinnhestinn sem verður rannsakaður

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þessi mynd fer í sögubækurnar.
Þessi mynd fer í sögubækurnar. (AP Photo/Chris Pizzello)

Bandaríska kvikmyndakademían hefur fordæmt hegðun leikarans Wills Smith á nýafstaðinni Óskarsverðlaunafhendingu, þar sem Smith gaf grínistanum Chris Rock kinnhest í beinni útsendingu.

Það vakti gríðarlega athygli í nótt þegar Will Smith rauk upp á svið og sló Chris Rock í beinni útsendingu á Óskarnum. Sá síðarnefndi hafði sagt brandara um eiginkonu Smith, Jada Pinkett Smith.

Brandari Rock snerist um að Jada Pinkett minnti á karakterinn G.I. Jane sem Demi Moore lék í samnefndri bíómynd á tíunda áratug síðustu aldar.

Jada Pinkett er krúnurökuð en hún hefur talað opinberlega um að hún glími við hárlos. Heyra mátti saumnál detta í salnum þar sem Rock reyndi að halda andliti eftir uppákomuna óvæntu.

Snemma í morgun gaf Bandaríska kvikmyndaakademían út stutta yfirlýsingu á Twitter, þar sem fram kom að akademían gæti ekki samþykkt ofbeldi af neinu tagi.

Í kvöld sendi hún frá sér ítarlegri yfirlýsingu, þar sem hegðun Smith var fordæmd og því heitið að formleg rannsókn færi fram á uppákomunni.

„Akademían fordæmir gjörðir Hr. Smith á verðlaunaathöfninni,“ er haft eftir talsmanni hennar á vef Variety.

„Við höfum hafið formlega rannsókn á atvikinu og munum kanna frekar hvaða afleiðingar það mun hafa miðað við reglur og siðareglur okkar og þau lög sem eru í gildi í Kaliforníu,“ er einnig haft eftir talsmanninum.

Will Smith var kampakátur með styttuna frægu, sem hann hlaut fyrir besta leik í aðalhlutverki karla fyrir leik hans í kvikmyndinni King Richard.AP

Líklegt þykir að Smith muni þurfa að gjalda fyrir kinnhestinn á einhvern hátt, en í frétt Variety segir að ólíklegt sé að Óskarverðlaunin, sem hann hlaut fyrir besta leik í aðalhlutverki, skömmu eftir kinnhestinn, verði tekin af honum.

Komið hefur fram að Chris Rock ætli sér ekki að kæra kinnhestinn til lögreglu.


Tengdar fréttir

Will Smith sló Chris Rock í beinni útsendingu

Will Smith rauk upp á svið og sló Chris Rock í beinni útsendingu á Óskarnum eftir að hann kom með brandara um konuna hans Jada Pinkett Smith. Rock virtist vera í áfalli í kjölfarið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.