„Því miður viðraði ekki sem skyldi á þessum fyrsta degi og því náðu færri að nýta sér daginn,“ segir á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda um upphaf strandveiðanna í ár.
Flestir bátanna á sjó í gær voru á svæði A eða 61 talsins, en svæðið nær yfir Breiðafjörð og Vestfirði, frá sunnanverðu Snæfellsnesi og að Strandabyggð. Þar veiddist einnig mest í gær og var meðalafli á bát 773 kíló á svæði A.

Minnst veiddu bátar á svæði B eða 475 kíló að jafnaði á bát. Það svæði er Mið-Norðurland og liggur frá Húnaflóa og að Skjálfandaflóa en 23 bátar hófu veiðar þar í gær.
Svæði C nær yfir Norðausturland og Austfirði, með Þingeyjarsveit og Djúpavogshreppi, sem nú er Múlaþing. Þar reru 26 bátar á gær og fengu 618 kíló að meðaltali.
Svæði D er suðurströndin og Suðvesturland, með Hornafirði og Borgarbyggð. Þar héldu 22 strandveiðibátar á sjó í gær og reyndist afli þeirra 666 kíló að meðaltali á bát.

Samkvæmt reglugerð um strandveiðar er hverju skipi heimilt að stunda strandveiðar í 12 veiðidaga innan hvers mánaðar frá 2. maí til 31. ágúst, svo fremi að heildarstrandveiðikvótinn klárist ekki fyrr. Ekki er heimilt að stunda veiðar á föstudögum, laugardögum og sunnudögum.
Veiðiferð má ekki standa lengur en í 14 klukkustundir og eingöngu er heimilt að fara í eina veiðiferð á hverjum degi. Hámarksafli er 650 kíló á dag, í þorskígildum talið, og miðast við slægðan fisk. Það þýðir 774 kíló af óslægðum þorski.
Í fréttum í gær kom fram að strandveiðisjómenn í Norðurfirði á Ströndum neyddust til að fresta brottför þar sem þungatakmarkanir á þjóðveginum norður í Árneshrepp meinuðu flutningabílum að sækja aflann. Vegagerðin hefur núna aflétt þeim þungatakmörkunum.
Hér má sjá útsendingu Stöðvar 2 frá fyrsta degi strandveiðanna: