Skoðun

Opið bréf til fram­boðs­lista varðandi sýn þeirra á kyn­þátta­for­dóma

Snorri Sturluson skrifar

Nýverið opinberuðust rasísk viðhorf í samfélaginu í tengslum við flótta ungs hörundsdökks manns úr haldi lögreglunnar. Í kjölfar þess opinberaðist mjög glögglega að kynþáttafordómar lifa góðu lífi hér sem annas staðar. Ef við eigum að taka mið af reynslu annarra landa þar sem kynþáttafordómar eru vel þekktir þá má áætla að fordómar á borð við þá sem upp komu í kjölfarið hafi áhrif á hörundsdökk börn og unglinga í skólum, í frístundastarfi og almennt í borgarsamfélaginu.

Lög nr. 85 frá 2018 kveða á um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Það er upplifun okkar, sem erum foreldrar barna af öðrum kynþáttum en hvítum á Íslandi að skólareglur og áætlanir um einelti, vinsamlegt samfélag og jákvæðan skólabrag nái ekki alltaf utan um hið djúpstæða mein sem kynþáttafordómar eru og að það sé annaðhvort ekki nægilega vel mörkuð stefna eða henni sé ekki framfylgt af staðfestu. Úr því þarf að bæta.

Því leggjum við, Aðgerðarhópur gegn fordómum á Íslandi-2022 fyrir framboðin í Reykjavík þrjár spurningar.

  1. Hvaða sýn hefur framboðið á stöðu barna og ungmenna af öðrum kynþætti og uppruna en hvítum í Reykjavík, í ljósi nýliðinna atburða?
  2. Í ljósi atburðarins sem vísað er til að ofan teljið þið vera þörf á aukinni, jafnvel skilyrtri, fræðslu eða festu í verklagi fyrir starfsfólk í skóla- og frístundastarfi borgarinnar um kynþáttafordóma, hvernig bregðast skal við þegar börn og ungmenni verða fyrir þeim og hvernig staðið er að því að fræða börn og ungmenni um kynþáttafordóma?
  3. Ef já við spurningu 2, biðjum við vinsamlegast um stutta lýsingu á sýn flokksins um hvaða frekari skref þið viljið stíga til að vinna gegn kerfislægum rasisma í borgarsamfélaginu, með hagsmuni og vellíðan barna og ungmenna af öðrum kynþáttum og uppruna en hvítum í huga.

Aðgerðarhópurinn lýsir sig fúslega viljugan til samtals og ráðgjafar við mótun og útfærslu stefnu borgarinnar í þessum efnum, með öllum flokkum sem vilja setja málið ákveðið á dagskrá eftir kosningar.

Fyrir hönd Aðgerðahóps gegn fordómum á Íslandi 2022.

Höfundur er heimspekingur.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×