Forseti Íslands er staddur á hótelherbergi í Boston á austurströnd Bandaríkjanna, á milli funda við öflugustu tæknifyrirtæki heims. Á síðustu örfáu dögum hefur þetta verið ekki minna en Apple, Microsoft og Amazon. Fundarefnið: Íslensk máltækni.
„Hæ Embla. Hver er forseti Íslands?“ spyr Guðni. „Forseti Íslands er Guðni Th. Jóhannesson,“ svarar tækið.
Guðni: „Sérðu, við getum þetta alveg. Þetta er enn þá á frumstigi, eða ekki langt á veg komið, en þetta verður framtíðin hvort sem okkur líkar betur eða verr.“
Meginmálið er að við getum talað íslensku við tækin. Á Íslandi er töluverð þekking til á þessu sviði, en hana þarf að sníða inn í kerfi tæknifyrirtækjanna, sem hanna síðan búnaðinn. Í þessu skyni var haldið til fundar við þessi fyrirtæki ásamt helstu sérfræðingum Íslendinga á þessu sviði.
„Hinir erlendu fulltrúar þessara stórfyrirtækja tókust bara á loft þegar þeir heyrðu hvað við höfðum fram að færa í þessum efnum. Ég er mjög bjartsýnn. Ég er mjög bjartsýnn á framtíð íslenskrar tungu,“ segir Guðni.
„Það sem skiptir máli er að sérfræðingarnir tali saman, að við náum tengslum við þessi fyrirtæki og að þau sjái sér hag í að vinna með okkur og það er afrakstur þessarar ferðar leyfi ég mér að segja,“ bætir forsetinn við.