Tímamótadómi Hæstaréttar sem sneri við tæplega hálfrar aldra gömlu dómafordæmi um að stjórnarskrá Bandaríkjanna tryggi konum rétt til þungunarrofs hefur verið tekið fagnandi af andstæðingum þungunarrofs. Stuðningsfólk réttinda kvenna segja dóminn hins vegar svipta konur grundvallarfrelsi til að ráða eigin líkama.
Þá óttast margir að íhaldsmennirnir við Hæstarétt, sem eru í öruggum meirihluta, eigi eftir að halda áfram að svipta fólk réttindum sem þeim hafa fram að þessu verið túlkuð í stjórnarskrá. Sum þeirra byggja enda á sömu forsendum og réttur kvenna til þungunarrofs fyrir viðsnúninginn í gær.
Frjálslyndu dómararnir þrír sem skiluðu séráliti eru á meðal þeirra sem deila þeim áhyggjum, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Önnur réttindi sem byggja á fjórtánda viðauka stjórnarskrárinnar um að ríki megi ekki skerða réttindi borgaranna án réttlátrar málsmeðferðar geti nú verið í hættu ef rétturinn beitir sömu túlkun til að endurskoða eldri tímamótadóma.
Á meðal þeirra er dómur frá 1965 um að hjón eigi rétt á að kaupa getnaðarvarnir, dómur frá 1967 um hjónabönd fólks af ólíkum kynþáttum, dómur frá 2003 um kynlíf samkynhneigðra og dómur frá 2015 um hjónabönd samkynhneigðra.
Eins og að lofa að Jenga-turninn hrynji ekki
Dómararnir þrír gáfu lítið fyrir fullyrðingar Samuels Alito, íhaldsdómarans sem skrifaði meirihlutaálitið, um að dómurinn hefði ekki þýðingu fyrir fordæmi um önnur mál en þungunarrof.
„Hugsið ykkur einhvern sem segir ykkur að Jenga-turninn muni einfaldlega ekki hrynja,“ sögðu dómararnir í minnihlutaáliti sínu og vísuðu til leiksins Jenga sem gengur út á að raða upp trébitum í turn sem hrynur óhjákvæmilega á endanum.
„Annað hvort er lunginn af meirihlutaálitinu hræsni eða öðrum stjórnarskrárvörðum réttindum er ógnað, það er annað tveggja,“ skrifuðu þau Stephen Breyer, Elena Kagan og Sonia Sotomayor.
"Either the mass of the majority's opinion is hypocrisy, or additional constitutional rights are under threat. It is one or the other." pic.twitter.com/mQ77HWhPp3
— southpaw (@nycsouthpaw) June 24, 2022
Sérálit sem Clarence Thomas, einn íhaldsamasti dómarinn við Hæstarétt, skilaði í málinu grefur einnig nokkuð undan fullyrðingum Alito um að dómurinn í málinu gær hafi ekki áhrif á önnur dómafordæmi réttarins.
Thomas skrifaði þannig að að hans mati ætti rétturinn að endurskoð öll önnur fordæmi sem byggja á rétti til sanngjarnrar málsmeðferðir til að leiðrétta mistök sem hefðu verið gerð í fyrir dómum. Nefndi hann sérstaklega dómana um rétt fólks til getnaðarvarna, hjónabönd samkynhneigðra og um að ríki megi ekki banna kynlíf samkynhneigðra.
In a solo concurring opinion, Thomas says the court should reconsider rulings that protect contraception, same-sex relationships, and same-sex marriage. pic.twitter.com/zcQNko6NVR
— Matt Ford (@fordm) June 24, 2022