Sé litið til Disney+, Netflix og Warner Bros. Discover, sést glögglega að verið er að hækka áskriftarverð, draga úr kostnaði og finna nýjar tekjulindir. Sambærilegar vendingar urðu á markaði samfélagsmiðla á árum áður, þegar fjárfestar fóru að leggja mun minni áherslu á notendafjölda og fóru þess í stað að horfa til tekna.
Í frétt Wall Street Journal (áskriftarvefur) segir að þeim hluta steymisstríðsins þar sem áhersla er umfram allt lögð á fjölgun notenda sé lokið. Nú sé hagnaður í forgangi.
Ódýrari áskriftir og auglýsingar
Til að mynda var tilkynnt í vikunni að áskriftarverð Disney+ yrði hækkað en ný og ódýrari áskriftarleið þar sem áskrifendur þyrftu að horfa á auglýsingar kynnt til leiks. Þetta var tilkynnt eftir að í ljós kom að Disney+ var komin með stærri áskrifendahóp en Netflix. Vert er að taka fram að forsvarsmenn Netflix þræta fyrir það og segja forsvarsmenn Disney margtelja suma áskrifendur.
Átta dala áskrift að Disney+ kostar nú ellefu dali en þeir sem vilja verða áskrifendur og horfa á auglýsingar munu nú borga átta dali fyrir.
Þá tilkynntu forsvarsmenn Netflix fyrr í sumar að til stæði að auka tekjur fyrirtækisins með því að byrja að sýna auglýsingar á sambærilegan mátta og Disney. Boðið yrði upp á ódýrari áskriftarleiðir með auglýsingum.
Þegar forsvarsmenn Netflix tilkynntu í apríl að notendum hefði fækkað í fyrsta sinn í áratug, tilkynntu þeir einnig að til stæði að fara í hart gegn áskrifendum sem deila lykilorðum sínum með öðrum. Margir brytu reglurnar varðandi það að deila lykilorðum og áætlað væri að það væri gert á rúmlega hundrað milljónum heimila víða um heim.
Sjá einnig: Misstu milljón notendur en virðið hækkar samt
Umfangsmikill niðurskurður
Í hinu nýsameinaða fyrirtæki, Warner Bros. Discovery, hefur áherslan verið lögð á umfangsmikinn niðurskurð til að draga úr kostnaði. Það vakti gífurlega athygli á dögunum þegar forstjóri fyrirtækisins hætti við útgáfu tveggja kvikmynda sem voru ætlaðar streymisveitunni HBO Max.
Þar er um að ræða kvikmyndirnar Batgirl, sem var mjög langt komin í framleiðsluferlinu, og Scoob. Framleiðsla Batgirl er sögð hafa kostað um níutíu milljónir dali en í stað þess að gefa myndina út var framleiðslunni hætt.
Ástæðurnar fyrir því eru sagðar vera áherslubreyting hjá yfirmönnum Warner Bros. Discovery og skattaafslætti sem ákvörðunin gerir fyrirtækinu kleift að nýta.
Bæði Warner Bros og Discovery voru með streymisveitur, HBO Max og Discovery+. Nú stendur til að sameina þær undir nýju nafni á næsta ári. Í millitíðinni er útlit fyrir að HBO Max bjóði upp á ódýrari áskriftarleið með auglýsingum.
Ekki er búist við því að veiturnar verði aðgengilegar hér á landi fyrr en árið 2024.
Minni fjölgun en meira áhorf
Einn sérfræðingur sem rætt var við í grein WSJ segir að þrátt fyrir að dregið hafi úr fjölgun notenda og sífellt fleiri flakki milli streymisveitna, verji fólk sífellt meiri tíma í að horfa á efni frá streymisveitunum. Sú þróun gerir birtingu auglýsinga enn meira aðlaðandi fyrir forsvarsmenn streymisveitna.
Hingað til hafa streymisveitur verið að mestu reknar með tapi og greinendur Warner Bros. Discovery búast við því að þessi taprekstur muni ná hámarki á þessu ári. Þeirra veitur verði reknar með hagnaði árið 2024.
Svipaða sögu er að segja af áætlunum varðandi Disney+. Sú streymisveita á að skila hagnaði fyrir september 2024. Frá því Disney+ var opnuð árið 2019 hefur streymisveitan verið rekin með rúmlega sjö milljarða dala tapi. Lauslega reiknað samsvarar það tæplega billjón króna.
Uppfært: Í upprunalegri útgáfu fréttarinnar stóð að Disney+ hefði verið rekin með milljarða dala hagnaði. Þar átti að standa tapi og hefur fréttinni verið breytt.