Vextirnir voru síðast hækkaðir í júní og þá um eitt prósent. Mánuðinn þar á undan voru þeir einnig hækkaðir um eitt prósent og í febrúar á þessu ári hækkuðu þeir um 0,75 prósent. Greiningardeildin spáir því einnig að vextirnir muni hækka einu sinni enn á þessu ári eftir fundinn í næstu viku, og þá um 0,5 prósent. Því muni þeir standa í sex prósentum undir lok árs.
„Vaxandi verðbólga, hækkandi verðbólguvæntingar og þenslumerki í hagkerfinu munu líklega ráða mestu um ákvörðun nefndarinnar. Stýrivextir verða líklega að minnsta kosti 6% í árslok en hægfara vaxtalækkunarferli gæti hafist eftir mitt næsta ár,“ segir í spá bankans sem birtist í dag.
Í spánni segir að kaupmáttur launa hafi rýrnað frá áramótum og almenningur sé svartsýnni á horfu í efnahag og atvinnulífi en hann hefur verið frá miðju ári 2020. Þetta, ásamt öðru, er samkvæmt deildinni, líklegt til að slá umtalsvert á neyslugleði landsmanna á seinni helmingi árs.
Hækkandi íbúðaverð skýrir talsverðan hluta verðbólgunnar samkvæmt spánni. Þegar mismunandi mælikvarðar á verðbólgu eru skoðaðir sé þó hægt að sjá að verðbólguþrýstingurinn er útbreiddur.
„Til að mynda mældist verðbólga miðað við VNV án húsnæðis 7,5% í júlímánuði. Auk íbúðaverðsins hefur innflutt verðbólga aukist verulega og innlendur kostnaðarþrýstingur í framleiðslu, verslun og þjónustu er umtalsverður um þessar mundir,“ segir í spánni.