Áhugamanni um útivist blöskraði svo ástandið í Reykjadal í dag að hann ákvað að mynda hluta þess rusls sem hann sá þar. Sá hefur reglulega komið í Reykjadal í mörg ár en man ekki eftir því að umgengni hafi nokkurn tímann verið svo slæm sem hún er nú.
Reykjadalur hefur um árabil verið geysivinsæll ferðamannastaður enda eru þar heitar laugar sem hver sem er getur baðað sig í án endurgjalds. Ekki skemmir fyrir að dalurinn er steinsnar frá höfuðborgarsvæðinu. Svo virðist sem gestum Reykjadals hafi farið aftur í umgengni undanfarið.

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar ákvað nýverið að hefja gjaldtöku á bílastæðum á Árhólmum við gönguleiðina að Reykjadal. Þeir fjármunir sem aflað er með gjaldtökunni eru eyrnamerktir uppbyggingu á svæðinu. Svo virðist sem þeim hafi ekki verið varið í þrif eða uppsetningu ruslatunna.

Þá var kaffihús nýlega opnað í Reykjadal en þar innandyra virðist umgengni ekki vera mikið skárri. Yfirfullar ruslatunnur blasa við þeim sem nýta sér salernisaðstöðu kaffihússins.

