Eins og frægt er lögðu starfsmenn Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI) hald á mikið magn opinberra og leynilegra gagna í Mar-a-Lago, sveitaklúbbi og heimili Trumps í Flórída, þegar húsleit var gerð þar í ágúst. Trump vill meina að hann eigi muni og gögn sem hald var lagt á og einnig að trúnaður ríki um önnur gögn.
Lögum samkvæmt hefði Trump átt að afhenda Þjóðskjalasafni Bandaríkjanna öll opinber gögn í hans vörslu er hann flutti úr Hvíta húsinu í janúar í fyrra.
Deilurnar um skjölin urðu fyrst opinberar í febrúar eftir að starfsmenn sóttu skjöl til Mar-a-Lago.
Fleiri gögn voru sótt í júní og þá staðhæfðu lögmenn Trumps að engin frekari opinber og/eða leynileg gögn væri að finna í Flórída. Það var ósatt og lék grunur á að gögn hefðu verið falin. Sá grunur virðist hafa reynst réttur en FBI framkvæmdi húsleit í Flórída í ágúst og fannst þá mikið magn opinberra og leynilegra gagna.
Sjá einnig: Enn bætist á vandræði Trumps
Lögmenn Trumps lögðu nýverið til að Raymond J. Dearie, sem var áður alríkisdómari, yrði fenginn til að fara yfir gögnin og eins og áður segir eru saksóknarar ekki mótfallnir því. Þeir eru þó ekki sammála lögmönnum Trumps varðandi hvað Dearie á að gera og vilja að hann fái ekki aðgang að um hundrað skjöl sem merkt eru sem ríkisleyndarmál, samkvæmt frétt New York Times.
Saksóknarar sögðust mótfallnir því að annar dómari sem lögmenn Trumps lögðu til yrði valinn og sögðu hann ekki hafa þá reynslu sem til þyrfti. Dómarinn Aileen M. Cannon hefur þó lokavalið en hún var sjálf skipuð í embætti af Trump.
Sjá einnig: Krafa Trumps samþykkt af dómara sem hann tilnefndi
Dearie var skipaður í embætti af Ronald Reagan og hefur setið í sérstökum dómstól sem fjallar um háleynileg mál.