Jenis av Rana var hent öfugum úr ríkisstjórn Færeyja í gær eftir að hafa neitað að innleiða lög sem varða réttindi samkynhneigðra foreldra. Í kjölfar þess sagði flokkur Jenis av Rana, Miðflokkurinn, sig úr ríkisstjórnarsamstarfi flokksins með Sambandsflokknum og Fólkaflokknum.
Þá var gert ráð fyrir því að boða þyrfti til kosninga, nema einhver flokkur á Lögþinginu, þingi Færeyinga, myndi styðja minnihlutastjórn flokkanna tveggja. Ekkert varð úr því og því boðaði Bárður á Steig Nielsen til kosninga.
Kosið verður fimmtudaginn 8. desember næstkomandi. Síðustu kosningar í Færeyjum fóru fram árið 2019 en þá fengu Sambandsflokkurinn og Fólkaflokkurinn alls fimmtán þingmenn af 33. Þeir mynduðu ríkisstjórn með Miðflokknum sem fékk tvo þingmenn.