Fjallað var um hugmyndina í Íslandi í dag, sem sjá má hér að ofan. Þar voru Verzlingar teknir tali, sem skutu hugmynd Sjálfstæðismannanna umhugsunarlaust niður; heldur ætti að lengja námið aftur samkvæmt þeim.
Ályktun allsherjar- og menntamálanefndar Sjálfstæðisflokksins hljóðar svo: „Skoða ætti að fækka skólaárum í níu þannig að ungmenni útskrifist að jafnaði úr framhaldsskóla 18 ára, eins og tíðkast í flestum löndum í kringum okkur. Löng sumarfrí hafa slæm áhrif á námsárangur, einkum þeirra sem standa höllum fæti.“
Þegar hugmyndin er borin undir Verzlinga hafna þeir henni í kór. „Bara djók,“ segir Skúli Ásgeirsson. „Ekki séns, bara nei,“ segir Guðmundur Pétur Dungal. „Af hverju erum við að drífa okkur svona?“ spyr Kristel Harðardóttir.

Nógu slæmt sé að hafa misst af lunganum úr skólagöngunni vegna heimsfaraldurs, eins og Verzlingarnir lýsa, til að þurfa ekki að horfa upp á enn aðra styttinguna eins og Sjálfstæðismenn stefna nú að.
Júlía Rut Ragnarsdóttir nemi segir: „Mér finnst klárlega að þetta ættu að vera fjögur ár. Þetta er mjög mikið námsefni, það er búið að þjappa öllu saman. Þannig að það er mjög mikið að gera hjá okkur, í stað þess að leyfa okkur bara að hafa fjögur ár og njóta menntaskólaáranna. Þetta eru skemmtilegustu tímarnir.“