Skoðun

Viltu spara milljón?

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar

Seinustu misseri hef ég vakið athygli á sjálftöku fasteignasala og spáð fyrir um breytingar á fasteignamarkaðnum. Nú get ég hins vegar fullyrt að þær breytingar eru komnar og að dagar sjálftöku við fasteignasölu séu því liðnir, rétt eins og þeim sem fylgjast með fjölmiðlum er kunnugt um. Hér ætla ég að fjalla stuttlega um þann breytta veruleika sem seljendur, kaupendur og fasteignasalar standa nú frammi fyrir, en ég tek skýrt fram að ég hef persónulega komið að því að skapa þann veruleika, enda á þeirri skoðun að menn eigi að leysa þau vandamál sem þeir sjá fremur en að kvarta eingöngu yfir þeim.

Sjálfvirknivæðing fasteignasölumarkaðsins

Stórt skilvirkni og framfara skref hefur verið stigið á fasteignasölumarkaðnum, en nú með nýrri þróun í hugbúnaði hefur umfang vinnu við sölu fasteigna minnkað verulega. Því er náð með því að nýta sjálfvirk samskipti við stofnanir og sjálfvirka skjalagerð í stað þess að mannshöndin annist verkin. En hvað þýðir það fyrir almenning, fasteignasala og samfélagið?

Fyrir seljendur fasteigna liggja stærstu tækifærin í því að geta selt eigin fasteign með aðstoð tölvutækninnar í stað þess að styðjast við fasteignasala[1]. Þannig sparar seljandinn sér kaup á vægast sagt kostnaðarsamri sérfræðiþjónustu og á sama tíma losna kaupendur við sinn kostnað af fasteignsala. Þá eykst áhætta seljenda fasteigna ekki með þessari söluaðferð nema þá síður sé, enda einskorðast gott sem öll ágreiningsmál við fasteingasölu við ágreining milli seljenda og kaupanda án þess að fasteignasali beri neina ábyrgð, auk þess að núverandi uppsetning söluþóknanna fasteignasala er þannig háttað að mikil áhætta er á því að þeir vinni fremur að eigin hag en hag seljanda eða kaupanda (Sjá fyrri skrif mín: Hér , hér , hér og hér).

En er þar með sagt að dagar allra fasteignasala séu taldir? Alls ekki. Séðir fasteignasalar munu bregðast við breyttum tímum með því að taka þátt í breytingunum. Þannig minnkar umfang vinnu þeirra verulega og þeir geta einbeitt sér að því að veita þá sérfræðiþekkingu sem sker þá úr hópnum í staðinn, og þar sem umfang vinnu þeirra minnkar verulega geta þeir verðlagt þjónustu sína á samkeppnishæfari máta. Þannig lifa séðir fasteignasalar áfram góðu lífi en á sama tíma vænkast hagur þeirra seljanda sem kjósa áfram að kaupa þjónustu fasteignasala, þó ekki til jafns við aukin hag þeirra sem kjósa að selja sjálfir.

Allir græða og engin tapar?

Starf fasteignasala felur í sér ýmis sérfræðistörf en jafnframt mikið af almennri handavinnu. Margir íslenskir fasteignasalar starfa svo hjá fasteignasölum sem taka væna sneið af tekjum þeirra gegn því að annast hluta þessarar almennu handavinnu og mögulega veita þeim aðgang að ýmsum fasteignasala forritum og eða annarri þjónustu eftir atvikum. Nú er tæknin hins vegar orðin þannig að gott sem allri almennri handavinnu fasteignasala hefur verið útrýmt og þeim veitt öll tól sem þarf til að sinna fasteignasölu á skilvirkara og einfaldara formi en þekkst hefur hingað til. Í reynd má segja að hvaða löggildi fasteignasali sem er sem hefur aðgang að tölvu geti nú starfrækt eigin fasteignasölu án fasts kostnaðar og án þess að annar fasteignasali hirði stóran hluta teknanna. Spurningin sem þessir fasteignasalar standa frammi er því einföld: Hvort vilt þú að tekjurnar sem þú aflar renni í þinn vasa eða vasa einhvers annars?

En ekki geta allir grætt á markaðsbreytingum sem þessum. Ljóst er að seljendur og kaupendur fasteigna eru að fara græða verulega. Sömuleiðis græðir samfélagið á aukinni skilvirkni og þannig aukinni framleiðslugetu. Þá munu fasteignasalarnir sem kjósa að breytast með breyttum tímum og kjósa að fá stærri hluta teknanna sem þeir afla í eigin vasa einnig græða. En hætt er við því að þeir fasteignasalar sem hafa sínar tekjur af tekjuöflun annarra fasteignasala, sem og þeir aðilar sem hafa viðhaldið fákeppni og verðsamráði öllum nema sjálfum sér í óhag árum saman séu að fara borga brúsann.

Höfundur fagnar endalokum sjálftökunnar á fasteignasölumarkaði.


[1]Það kann ef til vill að koma ýmsum á óvart að hverjum sem er sé heimilt að selja eigin fasteign. Raunin er þó sú að löggiltir fasteignasalar mega einir annast milligöngu með sölu fasteigna en einstaklingum er frjálst að selja eigin fasteign án milligöngu. Nýjungin hér er því að það sé raunhæfur kostur fyrir almenning að selja eigin fasteign án þess að sökkva sér djúpt í hvernig sölu fasteigna er háttað. Dæmi um sölu á eigin fasteign sem margir þekkja eflaust er að hjón gætu fært (selt) fasteignir á milli sín án fasteignasala en kannski fengið lögfræðing til að annast skjalagerð. Þarna átti sér vissulega stað sala milli tveggja aðila, sennilega bara undir hefðbundu kaupverði. Nú hins vegar þyrfti ekki lögfræðinginn lengur fyrir slík sölu, né fyrir mun almennari sölu til óþekkts aðila.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×