Og nokkuð er um nýjungar.
Annars vegar er nýr flokkur: Besta alþjóðlega vörumerkið á Íslandi.
Hins vegar verður veitt viðurkenning fyrir besta íslenska vörumerkið í flokknum ,,Persónubrandr.“
„Já við ákváðum að búa til flokk fyrir þann hóp einstaklinga sem hefur byggt upp sterkt vörumerki í kringum sig sem persónu. Þetta árið horfum við til tónlistarfólks en það sem er skemmtilegt við þetta er að við getum leikið okkur nokkuð með þennan flokk,“ segir Íris Mjöll Gylfadóttir, framkvæmdastjóri brandr vörumerkjastofu og bætir við:
,,Í ár hlýtur tónlistarmaður viðurkenninguna en seinna gætu þetta verið einstaklingar sem eru til dæmis í stjórnmálum, áhrifavaldar, öðrum listgreinum og svo framvegis.“
Tilkynnt verður um viðurkenningarhafa klukkan 12 í dag og verður viðburðinum streymt á Vísi.
Spennan magnast
Þetta er í þriðja sinn sem viðurkenningarhátíðin Bestu íslensku vörumerkin eru haldin á vegum brandr. Í valnefnd er valinkunnur hópur fólks sem ýmist telst til forystuhóps í atvinnulífinu eða innan fræðisamfélagsins. Alls 34 einstaklingar.
„Markaðurinn hefur klárlega mikinn áhuga á þessu en við fórum af stað í þessa vegferð til þess að efla umræðu um mikilvægi stefnumiðaðrar vörumerkjastjórnunar. Enda er sterkt vörumerki lykilatriði í að ná samkeppnisforskoti,“ segir Íris.
Það er svo skemmtilegt að sjá hvernig þessi viðburður er að hafa meira og meira vægi.
Ekki aðeins er stemning og spenna hjá þeim sem eru tilnefnd, heldur sér maður það á innsendum gögnum hvað fyrirtækin eru að vanda sig mikið og leggja mikla vinnu í þátttökuna.“
Verðlaunaflokkar Bestu íslensku vörumerkjanna eru fjórir.
Tveir flokkarnir eru fyrir vörumerki á einstaklingsmarkaði, annars vegar fyrirtækjum þar sem starfsfólk eru 50 talsins eða fleiri en hins vegar þar sem starfsfólk eru 49 eða færri.
Þá ereflokkur fyrir vörumerki á fyrirtækjamarkaðii og svo flokkur fyriralþjóðleg vörumerki á Íslandi.
Tilnefnd vörumerki eru:
- Starfsfólk 49 eða færri: Alfreð, blush, Dineout, hopp, Smitten, Svens.
- Starfsfólk 50 eða fleiri: 66Norður, Borgarleikhúsið, Íslandsbanki, Krónan, Orkan, Play, Sky Lagoon
- Vörumerki á fyrirtækjamarkaði: Advania, Brandenburg, Byko, Controlant, Origo
- Bestu alþjóðlegu vörumerkin á Íslandi: Boozt, Dominos, Ikea, KFC, Nocco.
En hvers vegna að bæta við alþjóðlegu vörumerkjunum?
„Til þess að tryggja að við séum að bera saman epli og epli. Því bakgrunnur þessara vörumerkja er allt annar en íslenskra vörumerkja. En þau fara samt í gegnum sama ferli, brandr vísitöluna, aðgreiningin á viðskiptamódelinu er skoðað og svo framvegis.“
Sjálfbærni og samfélagsábyrgð áberandi
Íris segir áherslur í uppbyggingu vörumerkja enn sýna mjög sterk merki um hvernig vörumerki í dag eru orðin lykilatriði í því sem kallast ,,employee-branding.“
„Það er staðreynd að sterk vörumerki eru orðin lykilatriði í því fyrir fyrirtæki að laða til sín hæfasta starfsfólkið og halda því í starfi. Þetta hefur verið áberandi og er enn,“ segir Íris en bætir við:
„Hins vegar sjáum við mjög glöggt að það sem er alltaf að verða meira og meira einkennandi eru sjálfbærni og samfélagsábyrgð.“
En hvernig geta fyrirtæki gert sjálfbærni eða samfélagslega ábyrgð sýnilega sem hluta af vörumerki?
Það er allur gangur á því. Í sumum tilfellum er hægt að bæta við upplýsingum á vörurnar sjálfar. En oft eru þetta aðrar leiðir og þær geta verið mismunandi eftir því í hvaða geira vörumerkin starfa í og svo framvegis.
Fyrirtækin eru þá oft að vinna markvisst að innri markaðssetningu með háleitum markmiðum þar sem allt ferlið gengur út á að sýna hvernig vara er meðhöndluð eða framleidd með sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi.“
Íris gerir ráð fyrir að þessi liður eigi enn eftir að aukast næstu misseri, enda stutt í að íslenskum fyrirtækjum verði gert skylt að upplýsa betur um sjálfbærni sína.
En hvað með einstaklinginn sem hlýtur viðurkenninguna Persónubrandr. Þarf sá einstaklingur að uppfylla einhver skilyrði eins og önnur vörumerki?
„Valið um Persónubrandr er aðeins öðruvísi. Valnefndin tilnefnir aðila sem eru skoðaðir með þessa hefðbundnu matsliði til viðmiðunar. En sá einstaklingur fær síðan viðurkenninguna sem fékk flest atkvæði valnefndar.“