Björgunaraðilar frá Bretlandi og Frakklandi björguðu að minnsta kosti 59 manns sem lifðu sjóslysið af. Flestir þeirra sem voru á bátnum eru frá Afganistan en einhverjir frá Súdan, kemur fram í frétt BBC. Tveggja er enn saknað en leit af þeim hefur verið aflýst.
Ekki er vitað með vissu hversu mörgum var bjargað og hve margir eru slasaðir. Frönsk yfirvöld segja að oft séu flóttamannabátar svo yfirfullir að erfitt sé að telja hve margir eru innanborðs.
Hinir látnu eru afganskir menn sem eru taldir vera á fertugsaldri, samkvæmt saksóknara frönsku borgarinnar Boulogne.
Sjöunda atvik vikunnar
Samkvæmt upplýsingum frá frönsku landhelgisgæslunni barst útkall um klukkan 4:20 að morgni að staðartíma um vandræði í yfirfullum bát sem staðsettur var út af ströndum Sangatte-sveitarfélagsins í Frakklandi. Þegar bátur landhelgisgæslunnar mætti á svæðið var báturinn þegar sokkinn og sumir farþegar kölluðu á hjálp.
Björgunarfólk í Frakklandi segir þetta sjöunda skiptið í vikunni sem þau hafa þurft að bjarga flóttafólki upp úr sjónum eftir að bátur hefði sokkið. Líklegt sé að bátarnir sem smyglarar nota til þess að koma fólki milli heimsálfa séu gallaðir.
Mikið hefur borið á málum nýlega þar sem flóttafólk hefur drukknað á sjó í Evrópu. Á dögunum lést 41 flóttamaður þegar bátur fórst út af ströndum eyjunnar Lampedusa. Í júní létust hátt í hundrað flóttamenn þegar bát hvolfdi út af ströndum Grikklands. Fimm hundruð er enn saknað.