Skoðun

Litla krafta­verka­deildin

Guðrún Pétursdóttir skrifar

Efst á Grensásnum, næstum ósýnileg í skjóli hárra grenitrjáa, er látlaus þriggja hæða bygging. Fyrir 50 árum var henni ætlað að vera dvalarheimili aldraðra, en fékk annað hlutverk, því framsýnir menn áttuðu sig á að Íslendingar yrðu að eiga endurhæfingardeild. Þegar meðferð á bráðadeild og legudeildum spítala lýkur, eiga flestir enn töluvert í land til að ná besta mögulega bata. Til þess þarf markvissa endurhæfingu undir stjórn sérfræðinga. Þannig má ná undraverðum árangri. Það þekkja þeir sem dvalið hafa á Grensásdeild, hvort sem eru sjúklingar eða aðstandendur þeirra. Í þeim hópum er deildin kölluð Litla kraftaverkadeildin og hún nýtur trausts og einstakra vinsælda. Hún er deildin sem öllum þykir vænt um en enginn vill vera á.

Til að byrja með gerði það ekki mikið til að húsnæðið var ekki hannað með endurhæfingu í huga. En eftir því sem tímar hafa liðið og tækjabúnaður hefur þróast, hefur það orðið til sífellt meiri óþæginda og er löngu farið að setja starfinu skorður. Eðli málsins samkvæmt þarf sjúkraþjálfun mest rými með ýmsum tækjabúnaði, frá handlóðum og þrekhjólum upp í fyrirferðarmikil göngubretti. Það er nánast broslegt að ætla 55 fermetra undir þessa kjarnastarfsemi, en þannig hefur það verið á Grensási. Enda æfir fólk út um allt hús, á göngum, í stigum, og hvar sem við verður komið. Undanfarin ár hefur ekki verið hægt að kaupa nýjustu og bestu þjálfunartækin, því þau einfaldlega komast ekki fyrir.

50 ára afmælisgjöfin frá ríkinu hefði því ekki getað verið betri: tveggja hæða viðbygging upp á 4.400 fermetra, sérhönnuð með þarfir endurhæfingar í huga. Í áratugi hafa Hollvinir Grensáss og aðrir velunnarar barist fyrir stækkun húsnæðisins. Óskin rættist í heimsfaraldrinum þegar stjórnvöld ákváðu að tvöfalda húsnæðið. Síðan hefur allt gengið smurt, hverjum áfanga á fætur öðrum lokið farsællega og á fimmtudaginn 5.október 2023 verður fyrsta skóflustungan tekin.

Nýja byggingin mun gjörbreyta öllum aðstæðum á deildinni. Björt og rúmgóð bygging, hagkvæm og falleg. Á Grensási dvelur fólk oft í vikur og jafnvel mánuði. Þá skiptir máli að þurfa ekki að deila herbergi með öðrum. Í nýju byggingunni verða einmenningsherbergi með snyrtingu og góðri aðstöðu til umönnunar. Það er mikilvægt að létta starfsfólki handtökin, þegar unnið er með lamaða sjúklinga.

Hollvinir eru í skýjunum yfir þessum áformum og fagna því að ríkið ætlar að sjá um að byggja húsið og búa það grunnbúnaði. Vel gert! En Hollvinir ætla að efna til landssöfnunar meðal fyrirtækja, félaga, klúbba og almennings, sem í gegnum tíðina hafa mætt óskum starfsmanna Grensásdeildar um sérstakan tækjabúnað. Nú verður hægt að kaupa þau tæki sem ekki hafa komist fyrir til þessa og það mun gerbylta aðstæðum til endurhæfingar.

Dæmi um tæki á óskalista starfsmanna Grensáss er tölvustýrt göngubretti sem nemur hverja snertingu og skráir skrefstærð, stigþyngd, hvort báðir fætur stíga jafnþungt osfrv.

Sjúklingurinn þarf ekki að bera eigin þunga, heldur er hægt að láta hann hanga í burðarvirki og stýra því hve mikill þungi hvílir á fótunum. Það þarf ekki marga starfsmenn til að halda sjúklingnum uppi og færa fætur hans. Þetta eykur öryggi og sparar mannafla stórlega.

Hægt er að fylgjast stöðugt með árangri þjálfunarinnar og laga æfingar að breyttri stöðu á hverjum tíma. Sjúklingur og þjálfari sjá hvernig miðar í átt að settu marki, sem er hvetjandi.

Fyrir framan sjúklinginn er skjár sem getur sýnt alls kyns umhverfi, náttúru eða borgarlandslag, en líka ójöfnur, tröppur, polla, og sveigjur sem kalla á viðbrögð sjúklingsins. Þannig verður þjálfunin margbreytileg, markviss og miklu skemmtilegri en verið hefur.

Þetta er eitt þeirra tækja sem við vonumst til að landsmenn geti gefið Grensásdeild í nýju bygginguna.

Nú reynir á samtakamáttinn! Söfnunarreikningurinn er þegar opinn – 00358-13-000749 og kennitalan 670406-1210.

Á föstudagskvöldið 6.október 2023 verður fjölbreyttur söfnunarþáttur í sjónvarpi RÚV, þar sem margir eftirlætislistamenn þjóðarinnar leggja Grensási lið. Í símaveri Vodafone tekur úrvalslið við framlögum í síma.

Gefum byr undir báða vængi – hjálpumst að!

Höfundur er formaður stjórnar Hollvina Grensásdeildar.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×