Dagur B. Eggertsson borgarstjóri lagði tillöguna fram í ljósi ásakana um að séra Friðrik hafi beitt drengi kynferðislegu áreiti eða ofbeldi. Eftir að þær komu fram hafa spunnist miklar umræður um styttuna og réttmæti hennar og á dögunum sveipaði vegfarandi hana svörtu klæði.
Samkvæmt heimildum fréttastofu benda umræður í borgarráði í morgun til samstöðu á meðal borgarfulltrúa um að styttan verði færð eða fjarlægð. Í skriflegu svari segir framkvæmdastjóri KFUM að málið fari í eðlilegt ferli og verði rætt af stjórn félagsins, fari svo að borgin sendi þeim erindi. Ekki náðist í safnstjóra Listasafns Reykjavíkur við vinnslu fréttarinnar.
Til stóð að taka tillöguna fyrir í síðustu viku en það frestaðist vegna umræðu um fjárhagsáætlun borgarinnar.
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, hafði einnig boðað aðra tillögu þess efnis að styttan „Séra Friðrik og drengurinn“ yrði fjarlægð en sú tillaga hlaut ekki afgreiðslu í dag.