Umfjöllun og viðtöl: Höttur - Álftanes 78-73 | Höttur hnoðaði í sigur Gunnar Gunnarsson skrifar 14. desember 2023 21:10 Höttur vann góðan sigur í kvöld. Vísir/Hulda Margrét Höttur batt enda á þriggja leikja sigurhrinu Álftaness í úrvalsdeild karla í körfuknattleik með 78-73 sigri þegar liðin mættust á Egilsstöðum í kvöld. Líkamleg barátta einkenndi leikinn á löngum köflum og þeim verður best lýst sem óttalegu hnoði. Það var upp úr miðjum fyrsta leikhluta sem Höttur byrjaði að ná forustunni. Leikmenn liðsins fóru að hitta úr langskotum sínum svo úr varð 22-14 forusta eftir leikhlutann. Höttur lét það forskot aldrei af hendi og stjórnaði hraðanum í leik sem ekki verður minnst fyrir mikil tilþrif. Höttur hitti ágætlega á kafla í öðrum leikhluta og komst þá í 41-28. Álftanes tók þá leikhlé og náði að þétta vörnina. Það varð til þess að munurinn fyrir leikhlé náðist niður í fimm stig, 44-39. Nokkuð sérstök staða var uppi þegar sex mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Álftanes búið að fá á sig fimm villur og Höttur kominn í bónus, án þess að hafa fengið á sig villu á móti. Hetti tókst ekki að nýta það. Sóknarleikur beggja liða fór í algjöran baklás og ekki voru nema átta stig skoruð eftir þetta í leikhlutanum. Ýmist geiguðu skot af vellinum eða menn reyndu upp á sitt eindæmi að hnoðast í gegn undir körfunni, án mikils árangurs. Höttur fór með 61-52 forustu inn í síðasta leikhlutann. Fyrri hluta hans var lítið skorað en svo fóru þristar að detta. Fyrst einn hjá Hetti, síðan tveir í röð frá Álftanesi og munurinn kominn niður í þrjú stig, 68-65. En Höttur komst af stað aftur. Adam Eiður Ásgeirsson, sem átti virkilega góðan leik, setti niður þriggja stiga skot. Hann stal síðan boltanum í næstu sókn, brunaði upp og fékk dæmda körfu þar sem Douglas Wilson varði skot hans á leið niður. Þar með var Höttur kominn í 73-66 stiga forustu með tæpar þrjár mínútur eftir. Álftanes reyndi að hleypa leiknum upp með pressuvörn í blálokin en Höttur leysti hana og kláraði leikinn. Adam Eiður var stigahæstur hjá Hetti en Dúi Jónsson hjá Álftanesi. Báðir skoruðu 25 stig. Hvað gekk vel? Leikur Hattar gekk almennt vel. Liðið stjórnaði hraðanum og var yfir svo að segja allan leikinn. Það var mikil barátta í liðinu eins og 48 fráköst, þar af 14 hjá Nemanja Knezevic, bera vott um. Hann var í miklum slag við Douglas Wilson undir körfunni löngum stundum og víðar á vellinum mátti sjá harða stöðubaráttu. Hvað gekk illa? Það komu langir kaflar í leikinn þar sem lítið var skorað. Höttur skoraði þrjú stig seinni helming annars leikhluta. Í lok þriðja leikhluta skoruðu liðin sem fyrr segir átta stig samanlagt. Þetta var ekki áferðafallegur körfubolti en Hattarmenn þiggja stigin. Hverjir stóðu upp úr? Adam Eiður Ásgeirsson átti trúlega einn sinn besta leik fyrir Hött, skoraði 25 stig, var með 64% nýtingu utan af velli. Hann skoraði 15 stig úr þriggja stiga skotum og var þar með 5/8 í nýtingu. En það skipti ekki síður máli að hann virkaði vel stemmdur á vellinum. Hann barðist vel og sinnti fyrirliða hlutverkinu með að vera fyrstur til að fagna samherjum sem sýndu góð tilþrif. Drullusama hvort körfuboltinn sé fallegur ef við vinum Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var ánægður með spilamennsku síns liðs í 78-73 sigri á Álftanesi í úrvalsdeild karla í körfuknattleik á Egilsstöðum í kvöld. Höttur hafði fyrir leikinn tapað tveimur deildarleikjum í röð en Álftanes unnið þrjá. „Álftanes er þrusugott lið og ég er mjög ánægður með liðið í kvöld. Mér fannst við stjórna hraðanum vel, vera skynsamir og agaðir í flestum tilfellum þótt alltaf komi einhverjar gloríur. (Deontaye) Buskey tók galið skot hér undir lokin. En hann er æðislegur og ætlaði að kveikja í kofanum. Stigahlutfallið skiptir máli og við verðum að læra að læsa leikjum. Við náðum forustu og héldum henni. Það var þrisvar sem Álftanes kom til baka og leikurinn var jafn en við rifum okkur frá aftur.“ Hnoðið skilaði sér Frá miðjum þriðja leikhluta fram undir miðjan fjórða leikhluta var lítið skorað, sérstaklega utan af velli. Það gilti fyrir bæði lið sem treystu á einstaklingsframtak undir körfunni sem illa gekk frekar en að ná að opna skotfæri. „Þeir skoruðu heldur ekki mikið þarna. Við vorum með fáa tapaða bolta. Hnoðið skilaði sér að því leiti. Ef þér finnst þetta ljótt þá er mér drullusama. Við unnum þennan leik. Höttur er að verða betri í að vinna leiki, bæði sem lið og samfélag. Meðan við löndum sigri er okkur skítsama hvernig.“ Adam Eiður Ásgeirsson, fyrirliði Hattar, var stigahæstur heimamanna með 25 stig. Hann átti virkilega góðan leik og var drífandi í liðinu. „Hann byrjaði með látum og kveikti í okkur. Hann er að þroskast sem fyrirliði. Hann sýndi fyrirliðahæfileika sína með að draga vagninn fyrir okkur eftir nokkra tapleiki.“ Karlovic frá eftir umferðaróhapp Höttur var í kvöld án Matej Karlovic sem slasaðist í umferðaróhappi á leið í bikarleik liðsins í Hveragerði síðasta sunnudag. „Það var keyrt aftan á einn bílinn okkar á leiðinni til Hveragerðis. Hann fékk heilahristing og stífnaði í baki. Hann er enn alveg læstur og slæmur. En óhöppin gerast. Ef við vinnum leiki þá má hann hvíla sig.“ Deildin er nú hálfnuð og framundan er þriggja vikna jólafrí. Höttur fer inn í það með sex sigurleiki úr 11 leikjum, sem er langbesti árangur liðsins á á sambærilegum tíma í úrvalsdeildinni. Viðar segist liðið ákveðið í að halda áfram á sömu braut og ekki séu fyrirsjáanlegar breytingar á leikmannahópnum í fríinu. „Ég er ánægður með hópinn. Við viljum byggja áfram á hugmyndafræðinni um að búa hægt og rólega til betra lið. Það má samt aldrei segja aldrei, til dæmis ef við lentum í miklum meiðslum, en það er ekkert að breytast eins og staðan er núna. Kjartan Atli: Ákefð Hattar réði úrslitum Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness, sagði ákefð og baráttu Hattar hafa skilað heimaliðinu sigrinum í kvöld. Að auki hefðu meiðsli og veikindi veikt hans lið. „Ákefð Hattar réði úrslitum. Tölfræðin segir okkur að þeir voru ákafari í sínum aðgerðum. Þeir fengu fleiri vítaskot, keyrðu fastar á vörnina okkar og tóku 15 fráköstum meira. Hattarmenn komu hvassir inn í leikinn og við svöruðum því ekki nógu vel.“ Mikil stöðubarátta var einkennandi fyrir leikinn, leikmenn tóku vel á því þegar þeir börðust hvor við annan án bolta undir körfunni. „Ég er sammála því. Við höfum verið í ákveðnu varnarskema sem gengur út á að skipta og halda okkur fyrir framan menn. Nemanja (Knezevic) fór á vænginn hjá okkur þegar þeir skiptust niður á hann og nýtti styrk sinn. Þetta var barningur en bæði lið voru til í það. Þetta eru ekki ólík lið sem spilaða svipaða vörn og eru með breidd í sínum sóknaraðgerðum. Við hefðum getað sagt okkur fyrirfram að þetta yrði barningur.“ Fegurðin var í vörninni Í leiknum voru kaflar þar sem ekkert, eða lítið var skorað mínútum saman og lítil tilþrif í sóknarleiknum á meðan. „Fegurðin var þá varnarmegin. Ég held að bæði liðin hugsi fyrst um vörnina, svo um sóknina. En svo eru bæði lið nýbúin í bikarleik og við höfum spilað fjóra leiki á 13 dögum. Ég ætla ekki að kasta fram afsökunum en við höfum verið án Harðar Axels (Vilbergssonar) síðan í fjórðu umferð og Eysteinn (Bjarni Ævarsson) hefur varla náð leik alveg heill. Að auki voru veikindi í hópnum í kvöld sem kannski skýra að menn hittu ekki eins og þeir hefðu átt að gera.“ Auk Harðar og Eysteins vantaði Ragnar Jósef Ragnarsson í lið Álftaness í kvöld. „Það munar um þessa leikmenn. Fimm leikmenn okkar spiluðu meira en 30 mínútur í kvöld. Okkur munar um Hörð og Eystein en við höfum nálgast þá af öryggi og erum vongóðir um að fá þá eftir áramót.“ Leikmenn horfa á svigrúmið til framfara Framundan er þriggja vikna jólafrí. Kjartan Atli segir að það verði nýtt til hvíldar frekar en breyting á leikmannahópnum. „Þetta er hópurinn okkar nema það gerist eitthvað drastískt sem við sjáum ekki fyrir. Við erum mjög ánægðir með hópinn og okkur sjálfa. Okkur finnst gaman að vera saman og bæði leikmenn og þjálfarar ná vel saman. Við nýtum fríið til að taka okkur frí. Erlendu leikmennirnir fara til síns heima meðan aðrir ferðast með fjölskyldunni út í heim. Þetta er frí sem menn hafa beðið eftir.“ Sáttur við árangurinn miðað við meiðslin í hópnum Deildin er nú hálfnuð og Álftanes hefur unnið sjö af ellefu leikjum sínum, sem telst gott hlutfall fyrir nýliða í úrvalsdeildinni. Kjartan Atli segir liðið ætla sér meira. „Ég hefði tekið þessu í byrjun hefði ég vitað um meiðslin og stöðuna á leikmannahópnum. Síðan koma lærdómskaflar í andlitið á okkur, eins og tap fyrir Keflavík sem við svörum með þremur sigrum í röð. Við höfum tapað leikjum sem við hefðum getað unnið. En miðað við hve óheppnir við höfum verið, það hefur varla verið leikur án þess að einhver leikmaður væri tæpur, þá erum við sáttir við árangurinn og að vera komnir í átta liða úrslit í bikarkeppninni. Við sjáum hins vegar svigrúm til bætinga. Ég held það einbeiti sér allir að því. Það er enginn að klappa sér á bakið heldur horfa frekar á það sem við eigum inni en það sem við höfum gert.“ Gaman að sjá jákvæða körfuboltamenningu á Austurlandi Kjartan Atli nýtti síðan tækifærið eftir leikinn til að hrósa Hetti fyrir hvernig félagið hefur byggst upp síðustu ár. „Ég hef komið hérna nokkuð oft til að spila körfubolta. Við erum að breiða út körfuboltann út sem okkar gospel. Að sjá svona menningu eins og hér er það sem mér finnst allt ganga út á. Liðið er vel þjálfaði og spilandi, fólkið er flott í stúkunni og tekur vel á móti manni. Það er gaman að sjá þessa jákvæðu menningu hér á Austurlandi.“ Löngum hafa verið sterk tengsl milli félaganna tveggja. Meðan Álftanes spilaði í annarri deildinni var liðið að miklu leyti skipað brottfluttum Hattarmönnum. Í dag eru tveir fyrrum leikmenn Hattar í Álftanesi, Dino Stipcic og Eysteinn Bjarni, sem er uppalinn eystra. „Taugin er sterk. Það má segja að Álftanes hafi verið Höttur B í gamla daga. Þeir eru allmargir sem hafa flutt á Álftanes frá Egilsstöðum og nærsveitum.“ Subway-deild karla Höttur UMF Álftanes
Höttur batt enda á þriggja leikja sigurhrinu Álftaness í úrvalsdeild karla í körfuknattleik með 78-73 sigri þegar liðin mættust á Egilsstöðum í kvöld. Líkamleg barátta einkenndi leikinn á löngum köflum og þeim verður best lýst sem óttalegu hnoði. Það var upp úr miðjum fyrsta leikhluta sem Höttur byrjaði að ná forustunni. Leikmenn liðsins fóru að hitta úr langskotum sínum svo úr varð 22-14 forusta eftir leikhlutann. Höttur lét það forskot aldrei af hendi og stjórnaði hraðanum í leik sem ekki verður minnst fyrir mikil tilþrif. Höttur hitti ágætlega á kafla í öðrum leikhluta og komst þá í 41-28. Álftanes tók þá leikhlé og náði að þétta vörnina. Það varð til þess að munurinn fyrir leikhlé náðist niður í fimm stig, 44-39. Nokkuð sérstök staða var uppi þegar sex mínútur voru eftir af þriðja leikhluta. Álftanes búið að fá á sig fimm villur og Höttur kominn í bónus, án þess að hafa fengið á sig villu á móti. Hetti tókst ekki að nýta það. Sóknarleikur beggja liða fór í algjöran baklás og ekki voru nema átta stig skoruð eftir þetta í leikhlutanum. Ýmist geiguðu skot af vellinum eða menn reyndu upp á sitt eindæmi að hnoðast í gegn undir körfunni, án mikils árangurs. Höttur fór með 61-52 forustu inn í síðasta leikhlutann. Fyrri hluta hans var lítið skorað en svo fóru þristar að detta. Fyrst einn hjá Hetti, síðan tveir í röð frá Álftanesi og munurinn kominn niður í þrjú stig, 68-65. En Höttur komst af stað aftur. Adam Eiður Ásgeirsson, sem átti virkilega góðan leik, setti niður þriggja stiga skot. Hann stal síðan boltanum í næstu sókn, brunaði upp og fékk dæmda körfu þar sem Douglas Wilson varði skot hans á leið niður. Þar með var Höttur kominn í 73-66 stiga forustu með tæpar þrjár mínútur eftir. Álftanes reyndi að hleypa leiknum upp með pressuvörn í blálokin en Höttur leysti hana og kláraði leikinn. Adam Eiður var stigahæstur hjá Hetti en Dúi Jónsson hjá Álftanesi. Báðir skoruðu 25 stig. Hvað gekk vel? Leikur Hattar gekk almennt vel. Liðið stjórnaði hraðanum og var yfir svo að segja allan leikinn. Það var mikil barátta í liðinu eins og 48 fráköst, þar af 14 hjá Nemanja Knezevic, bera vott um. Hann var í miklum slag við Douglas Wilson undir körfunni löngum stundum og víðar á vellinum mátti sjá harða stöðubaráttu. Hvað gekk illa? Það komu langir kaflar í leikinn þar sem lítið var skorað. Höttur skoraði þrjú stig seinni helming annars leikhluta. Í lok þriðja leikhluta skoruðu liðin sem fyrr segir átta stig samanlagt. Þetta var ekki áferðafallegur körfubolti en Hattarmenn þiggja stigin. Hverjir stóðu upp úr? Adam Eiður Ásgeirsson átti trúlega einn sinn besta leik fyrir Hött, skoraði 25 stig, var með 64% nýtingu utan af velli. Hann skoraði 15 stig úr þriggja stiga skotum og var þar með 5/8 í nýtingu. En það skipti ekki síður máli að hann virkaði vel stemmdur á vellinum. Hann barðist vel og sinnti fyrirliða hlutverkinu með að vera fyrstur til að fagna samherjum sem sýndu góð tilþrif. Drullusama hvort körfuboltinn sé fallegur ef við vinum Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, var ánægður með spilamennsku síns liðs í 78-73 sigri á Álftanesi í úrvalsdeild karla í körfuknattleik á Egilsstöðum í kvöld. Höttur hafði fyrir leikinn tapað tveimur deildarleikjum í röð en Álftanes unnið þrjá. „Álftanes er þrusugott lið og ég er mjög ánægður með liðið í kvöld. Mér fannst við stjórna hraðanum vel, vera skynsamir og agaðir í flestum tilfellum þótt alltaf komi einhverjar gloríur. (Deontaye) Buskey tók galið skot hér undir lokin. En hann er æðislegur og ætlaði að kveikja í kofanum. Stigahlutfallið skiptir máli og við verðum að læra að læsa leikjum. Við náðum forustu og héldum henni. Það var þrisvar sem Álftanes kom til baka og leikurinn var jafn en við rifum okkur frá aftur.“ Hnoðið skilaði sér Frá miðjum þriðja leikhluta fram undir miðjan fjórða leikhluta var lítið skorað, sérstaklega utan af velli. Það gilti fyrir bæði lið sem treystu á einstaklingsframtak undir körfunni sem illa gekk frekar en að ná að opna skotfæri. „Þeir skoruðu heldur ekki mikið þarna. Við vorum með fáa tapaða bolta. Hnoðið skilaði sér að því leiti. Ef þér finnst þetta ljótt þá er mér drullusama. Við unnum þennan leik. Höttur er að verða betri í að vinna leiki, bæði sem lið og samfélag. Meðan við löndum sigri er okkur skítsama hvernig.“ Adam Eiður Ásgeirsson, fyrirliði Hattar, var stigahæstur heimamanna með 25 stig. Hann átti virkilega góðan leik og var drífandi í liðinu. „Hann byrjaði með látum og kveikti í okkur. Hann er að þroskast sem fyrirliði. Hann sýndi fyrirliðahæfileika sína með að draga vagninn fyrir okkur eftir nokkra tapleiki.“ Karlovic frá eftir umferðaróhapp Höttur var í kvöld án Matej Karlovic sem slasaðist í umferðaróhappi á leið í bikarleik liðsins í Hveragerði síðasta sunnudag. „Það var keyrt aftan á einn bílinn okkar á leiðinni til Hveragerðis. Hann fékk heilahristing og stífnaði í baki. Hann er enn alveg læstur og slæmur. En óhöppin gerast. Ef við vinnum leiki þá má hann hvíla sig.“ Deildin er nú hálfnuð og framundan er þriggja vikna jólafrí. Höttur fer inn í það með sex sigurleiki úr 11 leikjum, sem er langbesti árangur liðsins á á sambærilegum tíma í úrvalsdeildinni. Viðar segist liðið ákveðið í að halda áfram á sömu braut og ekki séu fyrirsjáanlegar breytingar á leikmannahópnum í fríinu. „Ég er ánægður með hópinn. Við viljum byggja áfram á hugmyndafræðinni um að búa hægt og rólega til betra lið. Það má samt aldrei segja aldrei, til dæmis ef við lentum í miklum meiðslum, en það er ekkert að breytast eins og staðan er núna. Kjartan Atli: Ákefð Hattar réði úrslitum Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Álftaness, sagði ákefð og baráttu Hattar hafa skilað heimaliðinu sigrinum í kvöld. Að auki hefðu meiðsli og veikindi veikt hans lið. „Ákefð Hattar réði úrslitum. Tölfræðin segir okkur að þeir voru ákafari í sínum aðgerðum. Þeir fengu fleiri vítaskot, keyrðu fastar á vörnina okkar og tóku 15 fráköstum meira. Hattarmenn komu hvassir inn í leikinn og við svöruðum því ekki nógu vel.“ Mikil stöðubarátta var einkennandi fyrir leikinn, leikmenn tóku vel á því þegar þeir börðust hvor við annan án bolta undir körfunni. „Ég er sammála því. Við höfum verið í ákveðnu varnarskema sem gengur út á að skipta og halda okkur fyrir framan menn. Nemanja (Knezevic) fór á vænginn hjá okkur þegar þeir skiptust niður á hann og nýtti styrk sinn. Þetta var barningur en bæði lið voru til í það. Þetta eru ekki ólík lið sem spilaða svipaða vörn og eru með breidd í sínum sóknaraðgerðum. Við hefðum getað sagt okkur fyrirfram að þetta yrði barningur.“ Fegurðin var í vörninni Í leiknum voru kaflar þar sem ekkert, eða lítið var skorað mínútum saman og lítil tilþrif í sóknarleiknum á meðan. „Fegurðin var þá varnarmegin. Ég held að bæði liðin hugsi fyrst um vörnina, svo um sóknina. En svo eru bæði lið nýbúin í bikarleik og við höfum spilað fjóra leiki á 13 dögum. Ég ætla ekki að kasta fram afsökunum en við höfum verið án Harðar Axels (Vilbergssonar) síðan í fjórðu umferð og Eysteinn (Bjarni Ævarsson) hefur varla náð leik alveg heill. Að auki voru veikindi í hópnum í kvöld sem kannski skýra að menn hittu ekki eins og þeir hefðu átt að gera.“ Auk Harðar og Eysteins vantaði Ragnar Jósef Ragnarsson í lið Álftaness í kvöld. „Það munar um þessa leikmenn. Fimm leikmenn okkar spiluðu meira en 30 mínútur í kvöld. Okkur munar um Hörð og Eystein en við höfum nálgast þá af öryggi og erum vongóðir um að fá þá eftir áramót.“ Leikmenn horfa á svigrúmið til framfara Framundan er þriggja vikna jólafrí. Kjartan Atli segir að það verði nýtt til hvíldar frekar en breyting á leikmannahópnum. „Þetta er hópurinn okkar nema það gerist eitthvað drastískt sem við sjáum ekki fyrir. Við erum mjög ánægðir með hópinn og okkur sjálfa. Okkur finnst gaman að vera saman og bæði leikmenn og þjálfarar ná vel saman. Við nýtum fríið til að taka okkur frí. Erlendu leikmennirnir fara til síns heima meðan aðrir ferðast með fjölskyldunni út í heim. Þetta er frí sem menn hafa beðið eftir.“ Sáttur við árangurinn miðað við meiðslin í hópnum Deildin er nú hálfnuð og Álftanes hefur unnið sjö af ellefu leikjum sínum, sem telst gott hlutfall fyrir nýliða í úrvalsdeildinni. Kjartan Atli segir liðið ætla sér meira. „Ég hefði tekið þessu í byrjun hefði ég vitað um meiðslin og stöðuna á leikmannahópnum. Síðan koma lærdómskaflar í andlitið á okkur, eins og tap fyrir Keflavík sem við svörum með þremur sigrum í röð. Við höfum tapað leikjum sem við hefðum getað unnið. En miðað við hve óheppnir við höfum verið, það hefur varla verið leikur án þess að einhver leikmaður væri tæpur, þá erum við sáttir við árangurinn og að vera komnir í átta liða úrslit í bikarkeppninni. Við sjáum hins vegar svigrúm til bætinga. Ég held það einbeiti sér allir að því. Það er enginn að klappa sér á bakið heldur horfa frekar á það sem við eigum inni en það sem við höfum gert.“ Gaman að sjá jákvæða körfuboltamenningu á Austurlandi Kjartan Atli nýtti síðan tækifærið eftir leikinn til að hrósa Hetti fyrir hvernig félagið hefur byggst upp síðustu ár. „Ég hef komið hérna nokkuð oft til að spila körfubolta. Við erum að breiða út körfuboltann út sem okkar gospel. Að sjá svona menningu eins og hér er það sem mér finnst allt ganga út á. Liðið er vel þjálfaði og spilandi, fólkið er flott í stúkunni og tekur vel á móti manni. Það er gaman að sjá þessa jákvæðu menningu hér á Austurlandi.“ Löngum hafa verið sterk tengsl milli félaganna tveggja. Meðan Álftanes spilaði í annarri deildinni var liðið að miklu leyti skipað brottfluttum Hattarmönnum. Í dag eru tveir fyrrum leikmenn Hattar í Álftanesi, Dino Stipcic og Eysteinn Bjarni, sem er uppalinn eystra. „Taugin er sterk. Það má segja að Álftanes hafi verið Höttur B í gamla daga. Þeir eru allmargir sem hafa flutt á Álftanes frá Egilsstöðum og nærsveitum.“